138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég mundi gjarnan vilja heyra hv. þingmann fjalla aðeins nánar um hinn svokallaða Rauða þráð sem hér hefur borið á góma.

Ég hef stundum verið dálítið ósáttur við það hversu umburðarlyndur Sjálfstæðisflokkurinn er gagnvart fyrrum félögum sínum í ríkisstjórn, Samfylkingunni, og lætur ganga yfir sig, leyfi ég mér að segja. Ég skil ekki þessa fórnfýsi Sjálfstæðisflokksins og velti því fyrir mér hvenær hann ætli að fara að útlista hvernig þetta raunverulega gekk fyrir sig með Samfylkinguna sem gleymir jafnharðan aðgerðum sínum dag frá degi.

Í þessu sambandi langar mig að rifja upp orð sem mikil vinstri kona sem ég þekki viðhafði um Samfylkinguna í samanburði við Sjálfstæðisflokkinn. Hún hefur í gegnum tíðina ekki verið aðdáandi Sjálfstæðisflokks, svo að ekki sé meira sagt, en sagði eftir umræður hér í þinginu og valdbeitingu Samfylkingarinnar að nú væri Sjálfstæðisflokkurinn orðinn (Forseti hringir.) eins og blíður og krúttlegur flokkur miðað við Samfylkinguna.