138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn Icesave-málið og ekki að ástæðulausu, vinnubrögðin í efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd gera það að verkum að við þurfum að ræða þetta mjög ítarlega, enda var til þess vísað í þeirri umræðu sem átti sér stað þar að menn yrðu að taka umræðuna í þingsal.

Áður en ég fer að ræða nokkra efnislega þætti þessa máls get ég ekki annað en staldrað við og komið hér aðeins inn á, eins og áður hefur verið gert, ummæli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússonar, sem eru algjörlega með eindæmum. Hann heldur því fram, í viðtali sem birt hefur verið í New York Times, að ríkisstjórnin muni að sjálfsögðu fá Icesave-samningana samþykkta, eða þetta frumvarp, algjörlega óbreytt. Hann hefur það lítið fylgst með umræðunni í þingsal að hann telur meira að segja að hægt verði að gera ráð fyrir að ríkisstjórnin nái að semja við stjórnarandstöðuna og Icesave-frumvarpið verði óbreytt. Þetta segir okkur allt um það, virðulegi forseti, að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur ekki verið að fylgjast mikið með þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað.

Til þess að árétta það hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra aldrei tekið til máls við þessa umræðu hér og aldrei flutt ræðu. Hann hefur einungis komið hér í örstutt andsvör en aldrei séð sig knúinn til þess að halda ræðu í þeim stól sem ég stend nú í. Það er algjörlega óskiljanlegt, vegna þess að þessir Icesave-samningar fjalla fyrst og fremst um efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar til framtíðar og það er margbúið að koma inn á það hér hversu gríðarlegar hættur fylgja þessu máli. En hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra telur sitt mikilvæga innlegg í málið vera það að senda skeyti að utan, þessi ópólitíski ráðherra, og er það mjög dapurlegur málflutningur.

Í fréttum í gær var viðtal við mjög reyndan hagfræðing og viðurkenndan, sem heitir Ólafur Ísleifsson. Hann sagði að mjög mikilvægt væri að menn mundu ekki samþykkja Icesave-samningana strax og varaði við því. Hann benti á þá gríðarlegu óvissu sem fylgdi skuldsetningu þjóðarinnar og minnti á að ástandið væri mjög brothætt, menn skyldu fara sér varlega. Það er með ólíkindum að menn skuli ekki geta tekið undir það að nokkrir dagar eða vikur skipta ekki máli eða sá tími sem við þurfum að fá til þess að gera okkur grein fyrir því hvað þetta þýðir. Þetta segir manni einna helst að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, margir hverjir, vilja ekkert læra af bankahruninu síðasta haust. Það er bara sama hugsunin, þetta reddast og við skoðum þetta bara seinna. Það er alveg með ólíkindum að hlutirnir skuli enn vera með þeim hætti.

Ég vil í framhaldi af þessum ummælum hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra velta því upp, virðulegi forseti, hver raunveruleg afgreiðsla málsins hefur verið alveg frá upphafi, ekki bara núna heldur alveg frá upphafi. Það gerðist hér 5. júní, þegar samningarnir voru fyrst lagðir fram, að forustumenn Samfylkingarinnar komu fram og sögðu í fréttum að það væri alveg klárt að þessir samningar yrðu samþykktir af hálfu Samfylkingarinnar og ekkert stæði í vegi fyrir því. Þetta væri glæsileg niðurstaða, menn skyldu bara snúa sér að því að afgreiða þá þegjandi og hljóðalaust. Og ekki bara það heldur gekk svo mikið á á stjórnarheimilinu eftir frekju og ólæti hæstv. forsætisráðherra að hún afrekaði það að hrekja einn hæstv. ráðherra úr ríkisstjórninni, einmitt úr af þeim vinnubrögðum sem verið er að gagnrýna hér af hálfu stjórnarandstöðunnar.

Af hverju segi ég þetta, frú forseti? Vegna þess að ég held, og það er það sem skilaboð hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra senda hingað inn í þingið, að þingið sé bara afgreiðslustofnun. Það á ekkert að fjalla um þetta. Þetta skal samþykkt óbreytt, það sé með þeim hætti. Eftir að þetta kom inn í þingið í sumar tók þingið ráðin af framkvæmdarvaldinu og sá til þess að settir voru lagalegir fyrirvarar til þess að reyna að bjarga framtíð íslenskrar þjóðar og vinna að því að hún gæti endurreist sig út úr þessu efnahagsástandi.

Það er mjög gott að rifja það aðeins upp, virðulegi forseti, hvað gerðist eftir að búið var að samþykkja hina efnahagslegu fyrirvara. Þá gerðist það að menn fóru að spyrja ríkisstjórnina og forustumenn hennar út í það hvort þessir efnahagslegu fyrirvarar væru ekki þess eðlis að skynsamlegra hefði verið að setja þá inn í upphafi. Forustumenn ríkisstjórnarinnar sögðu að efnahagslegu fyrirvararnir rúmuðust allir innan samninganna. Það þyrfti ekkert að hafa áhyggjur af því, þetta rúmaðist innan samninganna. Ekki nóg með það, heldur gerðist það líka í framhaldinu að margir hv. þingmenn, sem höfðu gefið þá yfirlýsingu strax í upphafi að þeir væru tilbúnir að samþykkja samningana, fóru að skrifa greinar í blöð og halda því fram eftir á að hyggja að þeir hefðu alla tíð viljað setja þessa efnahagslegu fyrirvara og það hefði verið mikil og rík krafa innan úr Samfylkingunni um það. En það heyrðist ekki fyrr en eftir á.

Þegar búið var að samþykkja þessa efnahagslegu fyrirvara, á að fara að kynna þá fyrir Bretum og Hollendingum, eins og var krafa í fyrirvörunum, að bresk og hollensk stjórnvöld mundu staðfesta það að þau mundu gangast að þeim, var þannig staðið að því að það var alveg hreint með ólíkindum. Hæstv. forsætisráðherra skrifar bréf til forustumanna Hollands og Bretlands um það og er að kynna þeim fyrirvarana með þeim hætti, sem eru alveg óþolandi vinnubrögð.

Afsakið, frú forseti. Ég var að koma að því hvernig gengið var frá málinu þegar búið var að samþykkja það á Alþingi og hvernig staðið var að því að kynna það og það var með ólíkindum. En, virðulegi forseti, ég verð því miður að hætta ræðu minni núna og biðja þig að setja mig aftur á mælendaskrá þar sem ég get hreinlega ekki hætt að hósta.