138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég heyri að menn eru farnir að missa röddina í umræðunni en við skulum reyna að halda áfram engu að síður.

Það er rétt að á þessum tímapunkti umræðunnar um eitt mikilvægasta mál Íslandssögunnar að við stöldrum aðeins við og skoðum hvaða árangri umræðan hefur skilað og hvert við erum komin. Nú er það svo, frú forseti, að þegar málið kom fyrst inn í þingið var algerlega augljóst af hálfu ríkisstjórnarinnar að málið skyldi keyra óbreytt í gegnum þingið. Ekki skyldi breyta einum stafkrók í því frumvarpi sem hér liggur fyrir, hér skyldi ekki færa til eina einustu kommu. Sama hvaða rök yrðu færð fram í málinu, á þau skyldi ekki hlustað og það væri engin ástæða til að fara betur yfir þetta mál.

Frú forseti. Þessu var stjórnarandstaðan að sjálfsögðu ekki sammála, enda búið að kollvarpa þeirri miklu vinnu sem þingmenn fóru í í sumar við að smíða fyrirvarana sem urðu til þess að einhvers konar sátt skapaðist um þetta ömurlega mál. Þeirri vinnu hrósuðu þingmenn allra flokka við þá atkvæðagreiðslu og þess vegna er mér fyrirmunað að skilja, frú forseti, hvers vegna ríkisstjórnin náði að halda svo óhönduglega á málum eftir þessa mikla tímamótavinnu Alþingis að fyrirvararnir hafa allir fengið að fjúka út um gluggann. Ég næ því ekki hvernig nokkur ríkisstjórn þar sem fulltrúar hennar stóðu hér í lok sumarþingsins og hrósuðu þingmönnum fyrir þetta framlag þeirra, náði að klúðra þessum málum algerlega þannig að nú stöndum við hér, þingmenn þjóðarinnar, og rökræðum við okkur sjálf í marga daga um málið þar sem við ætlum ekki að gefast upp. Við munum ekki gefast upp fyrir því að ríkisstjórnin nái að koma þessu máli óbreytt í gegnum þingið. Það væri óábyrgt af okkur, frú forseti, og það er ekki í samræmi við það hlutverk sem við höfum á þingi þjóðarinnar.

Eitt aðalumræðuefnið í umræðunni núna hefur verið hvernig þetta mál snúi að stjórnarskránni. Komið hafa fram miklar efasemdir um það frá virtum lögspekingum að það mál sem hér er rætt standist ekki skoðun stjórnarskrár. Í Morgunblaðinu í dag, frú forseti, birtist grein eftir hæstaréttarlögmanninn Þorstein Einarsson þar sem fram kemur að að hans mati beri Alþingi skylda til að standa vörð um stjórnarskrá Íslands, og það höfum við í stjórnarandstöðunni verið að gera. Hér sé um að ræða skýrt brot á stjórnarskrá. Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt frumvarpinu skal Hæstiréttur Íslands því ekki eiga lokaorð um þann ágreining hvort okkur beri skylda til greiðslu þó að dómur gangi um það fyrir réttinum. Það vald er flutt til EFTA-dómstólsins eða eftir atvikum Evrópudómstólsins.

Fyrrgreint ákvæði frumvarpsins er í andstöðu við 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, en samkvæmt greininni fara dómstólar landsins, héraðsdómstólar og Hæstiréttur Íslands, með dómsvaldið.“

Frú forseti. Enn eru að koma fram aðilar, enn koma fram hugrakkir aðilar sem verja tíma sínum í að skoða þetta atriði og á öll þessi rök blása ríkisstjórnarflokkarnir. Það er hreint með ólíkindum. Og ég minnist enn og aftur á það, frú forseti, að ég hélt ræðu um kl. 5.21 á fimmtudagsmorgun þar sem ég hafði haft áhyggjur af stjórnarskránni og þessum sjónarmiðum og fékk þá í andsvar við mig hæstv. fjármálaráðherra sem blés á rök mín og sagði: „Þetta var allt saman skoðað af hálfu ríkisstjórnarinnar áður en við skrifuðum undir. Það er óþarfi að eyða tíma í þetta mál.“ Ég spyr enn og aftur, frú forseti, hvers vegna hefur hæstv. fjármálaráðherra þá ekki einfaldlega lagt fram þau gögn og þær skoðanir sem hann hafði í höndum þegar hann undirritaði þennan samning? Og hvers vegna hefur hæstv. ráðherra ekki einfaldlega komið fram í rökræðunni og sannfært mig, sannfært þjóðina, sannfært þá lögmenn sem skrifa í blöð landsins, um að hann sé með rökin sín megin? Hvers vegna hafa hv. þingmenn stjórnarliðsins ekki séð sér fært að blanda sér í umræðuna? Við ræðum hér sjálfa stjórnarskrána og hugsanlegt brot gegn henni. Hvers vegna ekki, frú forseti?

Ég hef staðið í þessum stól frammi fyrir hálftómum þingsal þar sem sæti stjórnarþingmanna eru auð, þeir þora hins vegar að sitja í hliðarsalnum og kalla fram í fyrir mér. Þeir hafa gert það næturlangt og það er hreint með ólíkindum. Fullyrt hefur verið úr hliðarsölum Alþingis, sem ég veit ekki hvort teljast fullgild frammíköll eða ekki eða einfaldlega bara hrein truflun á ræðu minni að þessi atriði hafi öll verið skoðuð og þetta liggi allt saman fyrir. Því er ég algerlega ósammála. Síðan er það svo, frú forseti, að hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa ekki komið hér upp og útskýrt og rökstutt fyrir mér hvers vegna þeir ætla að styðja þetta mál, en ég las það hins vegar í Morgunblaðinu í dag, á bls. 22, hver afstaða ýmissa þingmanna er sem ekki hafa tekið þátt í málinu. Þar segir, með leyfi forseta: „Afstaða mín styrkst ef eitthvað er“, segir hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir. „Verkefni sem við verðum að leysa“, segir hv. þm. Oddný Harðardóttir o.s.frv. Ég spyr, frú forseti: Hvers vegna er þetta fólk á þingi ef það getur ekki komið í ræðustólinn og rökstutt sitt mál? Hvers vegna talar fólk við fjölmiðla og birtir skoðanir sínar þar? Er það vegna þess að fólk þorir ekki að láta standa í þingtíðindum hvaða skoðun það hefur og hvernig það rökstyður mál sitt? Er það þess vegna, frú forseti? Það er von að maður spyrji.

Frú forseti. Frá því að þetta mál kom inn í þingið hefur verið augljóst að ríkisstjórnin vildi ekki að hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna kæmu og ræddu málið og ég held að ég sé búin að finna skýringuna á því, að ríkisstjórnin og framkvæmdarvaldið hafi samið þannig við Breta og Hollendinga að það kæmi ekki til greina að þingið breytti því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ég leyfi mér að vísa í grein 2.1.3 í samningnum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið mun: (a) strax og raunhæft reynist eftir dagsetningu þessa samnings leggja fyrir Alþingi frumvarp þar sem kveðið er á um að íslenska ríkið fái heimild, án skilyrða og fyrirvara, til að taka á sig ábyrgð samkvæmt breyttum lánssamningi …“

Frú forseti. Án skilyrða og fyrirvara. Hér er undirritað af hálfu framkvæmdarvaldsins að Alþingi muni ekki hafa skoðun á því frumvarpi sem kemur inn í þingið af hálfu ríkisstjórnarinnar og muni ekki fara í viðlíka vinnu og farið var í í sumar við að reyna að lagfæra verk ríkisstjórnarinnar. Framkvæmdarvaldið er búið að afsala þessum rétti fyrir hönd Alþingis, þingmenn stjórnarliðsins samþykkja það einfaldlega, taka ekki þátt í umræðunni og það eina sem þeir þora að gera er að tjá sig í Morgunblaðinu. Þetta er með hreinum ólíkindum og ég varð hálfsorgmædd, frú forseti, að horfa upp á alla þá vinnu sem fram fór í sumar, þá samstöðu sem ég taldi að væri að myndast um ný vinnubrögð, um það hvernig skyldi taka á málum í kjölfar þess mikla efnahagshruns sem hér hefur orðið. Ég taldi að það hefði orðið einhver ákveðin stefnubreyting hjá hv. þingmönnum en nú er það algerlega ljóst og grímulaust að ríkisstjórnin stjórnar Alþingi. Það er einfaldlega þannig að framkvæmdarvaldið stjórnar löggjafarvaldinu og hv. þingmenn stjórnarliðsins láta gott heita, samþykkja þau vinnubrögð og segja pass.

Frú forseti. Ég er ekki þreytt. Ég er ekki orðin þreytt á þessu máli og ég mun aldrei gefast upp í þeirri baráttu að reyna að sannfæra stjórnarliða um að þeir hafi valdið í sínum höndum. Hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa valdið í sínum höndum. Við getum tekið þetta mál og breytt því, við höfum valdið til þess, við höfum getuna til þess, það sýndum við í sumar. Það er einfaldlega þannig, frú forseti, að við þingmenn eigum að taka okkur tak, setjast niður, fara yfir þetta frumvarp enn og aftur og skoða það út frá þeim rökum sem komið hafa fram, skoða þau gögn sem nú verður safnað í kjölfar þeirrar miklu vinnu sem stjórnarandstaðan hefur náð fram með samningum varðandi þetta mál. Við skulum ekki, frú forseti, láta framkvæmdarvaldið svínbeygja Alþingi í þessu máli. Það kemur einfaldlega ekki til greina. Okkar er ábyrgðin. Við komum til með að standa hér og svara komandi kynslóðum hvernig við tókum á þessu máli. Er ekki rétt, frú forseti, að við tökum okkur saman, þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu, leitum réttu leiðanna, reynum að bæta málið eins og hægt er þrátt fyrir að við séum vissulega í þröngri stöðu, eins og sumir þingmenn stjórnarliðsins segja, t.d. hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, eins og ég les í Morgunblaðinu? Er ekki rétt að við tökum einn snúning á þessu enn, frú forseti? (Forseti hringir.) Skuldum við ekki íslensku þjóðinni það?