138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, við höfum reyndar orðið vör við það, þingmenn sem höfum staðið hér og rætt þetta mál, að þeir örfáu stjórnarliðar sem hafa hætt sér í ræðustól og þá ekki til að standa fyrir máli sínu í ræðu heldur í stuttum andsvörum hafa sýnt fram á að þeir hafa ekki fylgst með þróun málsins síðustu vikurnar eða mánuðina. Hjá þeim birtast gamlar fullyrðingar sem fyrir löngu er búið að hrekja en menn virðast einfaldlega ekki hafa áttað sig á því. Þetta þykir mér benda til þess að þessir sömu þingmenn séu að reyna að komast í gegnum þetta mál með því sem stundum er kallað strútsaðferðin, að stinga höfðinu í sandinn. Ábyrgðin er engu að síður mikil þegar fram líða stundir og afleiðingarnar koma í ljós. Það eru ekki bara efnahagslegar afleiðingar, heldur að sjálfsögðu líka lagalegar. Allt hangir þetta saman og mun hafa veruleg áhrif á íslenskt samfélag vegna þess að þegar teknar verða 100 millj. kr. í erlendri mynt af íslensku samfélagi á hverjum einasta degi ár eftir ár mun það hafa áhrif á líf hvers einasta Íslendings. Þess vegna langar mig að heyra álit hv. þingmanns á því hvað honum finnst um það þegar stjórnarliðar og talsmenn ríkisstjórnarinnar leyfa sér í rauninni að brengla umræðuna, viljandi vil ég meina, og augljóslega í sumum tilvikum eins og í því sem kallað er Rauði þráðurinn hjá Samfylkingunni og hefur verið rætt, þ.e. boð sem gengu út til samfylkingarmanna með hreinum ósannindum, því miður, sem stóð til að nota í áróðursskyni og afvegaleiða umræðuna um þetta mikilvæga mál. Eitt er ábyrgð þeirra sem hlusta ekki, en hvað með ábyrgð þeirra sem (Forseti hringir.) reyna viljandi að afvegaleiða umræðuna?