138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru ágætar vangaveltur sem komu fram í ræðu hv. þingmanns varðandi Icesave-flokkana sem nú eru í ríkisstjórn, flokkana sem virðast ætla að bera þetta mál í gegnum þingið. Hv. þingmaður velti fyrir sér hvaða rök væru þar á bak við vegna þess að hér er, eins og hv. þingmaður benti á, búið að draga fram í sviðsljósið álit, skýrslur, varúðarorð, greinar og ýmislegt annað sem virðist ekki ná í gegn til þeirra sem stjórna málinu og halda á því. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann geti með einhverjum hætti komist til botns í því með mér hvers vegna það koma engin rök, hvers vegna þingmenn Icesave-flokkanna sem eru við stjórnvölinn og halda á þessu máli áfram inni í þinginu, koma ekki í ræðustól hver á fætur öðrum og rökstyðja hvers vegna þetta mál á að fara í gegnum þingið eins og það lítur út í dag.

Stjórnarþingmenn hafa frá því fyrst í sumar látið orð falla um að samningurinn væri mjög góður sem þá kom, og eins að það sem samþykkt var í lok ágúst hafi verið gríðarlega gott, að þar höfum við náð miklum árangri. Nú erum við með þriðju útgáfuna í þinginu sem er allt öðruvísi. Hvers vegna koma þessir ágætu þingmenn ekki hingað og rökstyðja mál sitt?