138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Með þeim breytingum sem gerðar hafa verið í ljósi nýrra aðstæðna hefur sem betur fer skapast allnokkurt svigrúm til að draga úr skattahækkunum og við nýtum það svigrúm að fullu til að draga úr hækkun tekjuskatts á einstaklinga en höldum öðrum áformum um skattlagningu, bæði orku- og auðlindasköttum, hækkun tryggingagjalds vegna atvinnuleysisins og öðrum slíkum aðgerðum, notum til fulls svigrúm upp á yfir 20 milljarða kr. sem nýir þjóðhagslegir útreikningar sýna að við höfum sem og lægri vaxtakostnaður ríkisins, minna atvinnuleysi og fleiri þættir, það notum við að fullu til að leggja vægar tekjuskatta á almennar launatekjur. Ég svara spurningunni hiklaust játandi, þessar tillögur eru vel útfærðar og eins bærilegar og þær geta orðið fyrir heimilin í landinu, sérstaklega þau heimili sem hafa úr minnstu að moða, samanber það að okkur tekst með þessari útfærslu að lækka skatta á laun undir 270 þús. kr. (Gripið fram í.)