138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:54]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram mikil gagnrýni á þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, að boða á sama tíma niðurskurð í ríkisútgjöldum og stórkostlegar skattahækkanir á fyrirtæki, atvinnulíf og heimili sem verði til þess að dýpka og lengja kreppuna, þ.e. að það dragi úr eftirspurn í hagkerfinu sem leiðir til þessa. Við þessu er brugðist í greinargerð með því að segja:

„Sá misskilningur virðist algengur að skattheimta samfara útgjaldaaukningu dragi úr eftirspurn í hagkerfinu og leiði til samdráttar. Í reynd er því öfugt farið.“

Finnst hæstv. fjármálaráðherra boðlegt að vera með svona útúrsnúninga í greinargerð? Eða er það einfaldlega þannig að starfsmenn fjármálaráðuneytisins skilja ekki þá gagnrýni sem hefur komið á það að gera þetta samtímis á þennan hátt?