138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vitna í forvera minn, Árna M. Mathiesen, fyrrverandi. hæstv. fjármálaráðherra, sem í blaðaviðtali fyrir skemmstu í afar góðu viðtali sagði að ef það væri eitthvað sem hann sæi sérstaklega eftir og mætti kalla að hann hefði ekki staðið sig sem skyldi væri það nákvæmlega þetta sem við ræðum hér um. Það var heiðarlegt og á margan hátt drengilegt af honum að viðurkenna það að auðvitað, litið til baka, væri þetta kannski mesta yfirsjónin að hafa ekki áttað sig betur á því að froðutekjurnar mundu hverfa, að við mundum þurfa bæði innstæður til að eiga upp á að hlaupa og traustari tekjustofna til að takast á við erfiðleikana þegar þeir gengju í garð.

Varðandi innstæður í Seðlabankanum, já, vissulega og að sjálfsögðu var borgað inn á lífeyrisskuldbindingar en við skulum ekki gleyma því að inni í þessu er sala eigna upp á um 120 milljarða kr. (Gripið fram í: 60.) Ónei, Síminn einn var milli 60 og 70 milljarðar þannig að þegar þú leggur bankana og fleira saman er það komið í á annað hundrað milljarða króna á þessu tímabili sem var einfaldlega bara sala á fjölskyldusilfrinu. (Gripið fram í: En þið voruð með yfirboð í útgjöldum.)