138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í mínum huga eru 200.000 kr. eða 250.000 kr. eða 270.000 kr. ekki há laun. Þetta fólk hefði allt saman fengið þyngri skatta, kúrfan skerst mjög hratt þótt við hefðum að fullu verðtryggt persónufrádrátt og bætt við 2.000 krónum ef við hefðum neyðst til að hækka síðan álagningarprósentuna um kannski 2,3% eða jafnvel þaðan af meira. (Gripið fram í: Það er alveg rétt.) Þá hefðu þær kúrfur skorist mjög hratt og skattbyrði tiltölulega lágra launa hefði þyngst (Gripið fram í: Það er alveg rétt.) þannig að þetta ættum við að hafa í huga.

Ég hefði gjarnan viljað eins og ég sagði, frú forseti, að við hefðum haft efnahagslegar aðstæður til að lækka prósentuna á lægstu launin, ekki bara halda henni óbreyttri. Að því stefni ég um leið og efnahagslegar aðstæður leyfa því að það er það sem við eigum að gera. Þá erum við komin með almennilega framsækinn skattstiga sem stenst norræn velferðarsjónarmið og jafnaðarsjónarmið. (TÞH: Þú getur ekki …)