138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum ákveðið að taka saman á dagskrána þrjú stór frumvörp frá ríkisstjórninni og við þingmenn höfum takmarkaðan tíma til að fjalla um þau. Markast umræðan að sjálfsögðu að nokkru af því en ég treysti því að sjálfsögðu að efnahags- og skattanefnd fái góðan tíma til að fara vandlega yfir þessi frumvörp og meta heildaráhrif þeirra. Það er brýn nauðsyn að okkur á þinginu takist að meðhöndla þessi stóru mál með þeim hætti að t.d. umsagnaraðilum gefist gott ráðrúm til þess að bregðast við og koma athugasemdum sínum að og veita umsagnir. Jafnframt þarf að hafa til hliðsjónar ýmis atriði sem lúta að áhrifum frumvarpanna á hagkerfið og efnahagslífið, bæði til skamms tíma og lengri tíma.

Ég vil byrja á að segja að við stöndum frammi fyrir gríðarlega erfiðu verkefni sem er það að loka fjárlagagatinu. Við sem þjóð getum að sjálfsögðu ekki búið við það að hallinn á ríkissjóði sé á annað hundrað milljarðar. Það er ómögulegt, við stefnum hraðbyri í greiðsluþrot ef við rekum ríkið með þeim hætti, ef við högum útgjöldum okkar þannig að við höfum ekki tekjur til að standa undir þeim. Þess vegna á það að vera sameiginlegt verkefni okkar allra á þinginu að búa þannig um hnútana að þessu gati verði lokað sem allra fyrst.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur mælt fyrir þessum frumvörpum og þau snúa að tekjuhliðinni. Við höfum að sjálfsögðu líka í tengslum við fjárlagafrumvarpið verið að tala um útgjaldahliðina. Ég vil draga saman megináherslur okkar sjálfstæðismanna í efnahagsmálum og segja: Á útgjaldahliðinni gerum við ekki stóran ágreining um það hversu mikið ríkisstjórnin hyggst skera niður. Hér erum við hins vegar að ræða tekjuhliðina og hér er meginágreiningur í efnahagsmálum við ríkisstjórnina. Hann snýst um að við teljum að við þær aðstæður sem núna eru uppi í þjóðfélaginu sé óskynsamlegt og beri að varast með öllum tiltækum ráðum að leggja auknar byrðar á heimili og fyrirtæki í landinu, á atvinnustarfsemina. Við teljum nauðsynlegt að leita allra annarra ráða til að það verði ekki enn erfiðara fyrir fyrirtækin í landinu að komast í gegnum þennan krappa tíma og djúpa dal sem við höfum ratað í og að það sama gildi fyrir heimilin þar sem kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur stórlækkað og atvinnuleysi farið vaxandi. Skuldastaða heimilanna er alveg sérstakt vandamál. Þess vegna höfum við teflt fram valkosti við þessa leið ríkisstjórnarinnar sem felst í því að við sækjum frestaðar skatttekjur í séreignarsparnaðarkerfinu. Við höfum undanfarið hálft ár velt upp ólíkum möguleikum og boðið upp á viðræður við alla hagsmunaaðila um þá nálgun. Við höfum fjallað um það hvort við ættum mögulega að gera kerfisbreytingu á inngreiðslu í almenna lífeyrissparnaðarkerfið. Núna eftir að umræðan hefur þroskast höfum við talið rétt að leggja áherslu á að ríkið taki til sín frestaðar skatttekjur úr séreignarsparnaðarkerfinu vegna þess að það hefur miklu minni langtímaáhrif á skattstofna ríkisins.

Þessum vangaveltum er hins vegar öllum snúið á hvolf í þessu frumvarpi og greinargerðin með frumvarpi um tekjuöflun ríkisins er algjörlega ótrúleg lesning þegar kemur að þessari umræðu, þegar kemur að því að máta við raunveruleikann þær ólíku leiðir sem við höfum val um.

Því er t.d. haldið fram á bls. 11 í frumvarpinu í kaflanum um áhrif skattheimtu að með því að ríkið taki til sín skatttekjur úr séreignarsparnaðarkerfinu sé verið að taka lán. Bíðum nú við, er það ekki þannig að þegar við komum upp séreignarsparnaðarkerfinu tókum við alveg sérstaka ákvörðun um að við uppbyggingu þess mundi ríkið ekki taka til sín tekjuskatt af inngreiðslunum? Var það ekki bara ákvörðun sem við tókum? Er það ekki þá þannig að ríkið á í reynd stóran hluta af því fjármagni sem er í séreignarsparnaðarkerfinu? Bíður það ekki þess að ríkið taki það til sín einhvern tíma í framtíðinni? Hvernig má það vera þegar þessar staðreyndir ættu að vera mönnum svo augljósar að menn komist að þeirri niðurstöðu í frumvarpinu að það sé verið að taka lán hjá séreignarsparnaðareigendum?

Hér segir meira að segja að þegar borin er saman þessi leið og skattlagningarleið ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Helsti munurinn er sá að lántakan er ekki gerð á markaði þar sem lántakandi og lánveitandi komast að niðurstöðu um lánveitingu og lánsskilmála heldur er lánveitingin þvinguð fram með skyldu manna til að leggja fé í lífeyrissjóði og síðan upptöku hluta þess fjár í ríkissjóð.“

Því er haldið fram í frumvarpinu að ríkið væri með þessu að gera upptækar eignir fólks. Þetta er algjörlega ótrúleg staðhæfing sem er að finna í frumvarpinu um tekjuöflun ríkisins og reyndar er allur kaflinn um áhrif skattheimtu alveg makalaus. Því er t.d. haldið fram í þessum kafla að það geti verið skynsamlegt að stýra umsvifunum í hagkerfinu í gegnum ríkissjóð með því að halda uppi hagvexti, það sé gott við þessar aðstæður að ríkið auki nokkuð við tekjur sínar með nýjum sköttum og deili þeim síðan aftur út í þjóðfélagið til að halda lífi í hagkerfinu. Ég held að það sé orðað einhvern veginn á þann hátt að ríkið hafi þann valkost að auka nokkuð við útgjöld sín og geti þannig náð þessum áhrifum fram.

Bíðum nú við, hver er veruleikinn sem við erum stödd í í dag? Við skulum ekki gleyma honum. Mér sýnist að menn sem skrifuðu þessa greinargerð séu fastir í einhverjum fræðimannaheimi sem reyndar er dálítið einkennilegur og stenst enga skoðun. Staðreyndin er sú að við stöndum hér frammi fyrir því að þurfa að minnka útgjöld ríkisins. Ég minntist á það áðan að hallinn á ríkissjóði er yfir 100 milljarðar, langt yfir það, hann nálgast 200 milljarða. Við stöndum að sjálfsögðu ekki frammi fyrir þeim valkosti sem er verið að gæla við í frumvarpinu að ríkið fari eitthvað að auka útgjöld sín við þessar aðstæður. Þvert á móti verður það að draga úr útgjöldum sínum.

Þetta frumvarp gengur hins vegar út frá því að það sé skynsamlegt að ríkið taki til sín u.þ.b. 50 milljarða úr hagkerfinu sem yrðu þá teknir frá fyrirtækjum og heimilum og að ríkið verði þeim til þess að vinna aðeins á fjárlagahallanum. Samhliða þessu ætlar ríkið að draga úr útgjöldum sínum. Við erum þeirrar skoðunar að þessir 50 milljarðar séu betur geymdir hjá fyrirtækjunum og einstaklingunum og við eigum að fara aðrar leiðir til að auka tekjur ríkisins en skattlagningarleiðina.

Ég ætla hins vegar líka að segja annað. Ef við stæðum frammi fyrir þeirri stöðu eftir þrjú ár, skulum við segja, að þrátt fyrir að hafa farið leið skattlagningar á séreignarsparnaðinn, þ.e. að flýta töku skattanna úr séreignarsparnaðarkerfinu, og hefðum nýtt tekjurnar úr því kerfi næstu 2–3 árin til að draga úr hallarekstri ríkisins og ná fram sparnaði en við værum enn þá með óviðráðanlegan halla á ríkissjóði væri ljóst fyrir mér að við stæðum frammi fyrir því að skoða það að hækka skatta. Þá þyrftum við að fara yfir það hvar mætti gera það þannig að það kæmi best út fyrir efnahagslífið.

Mér þótti athyglisvert þegar ég frétti af því í vikunni að efnahagsráðgjafar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa ítrekað boðið fram aðstoð sína við að finna hagkvæmustu leiðir við að hækka skatta á Íslandi. Það lá fyrir að nýja ríkisstjórnin vildi fara skattahækkunarleiðina og þá komu fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sögðu: Ja, ástandið er viðkvæmt, við bjóðum fram aðstoð okkar færustu sérfræðinga við að finna út hvar skynsamlegt væri — að því gefnu að menn ætli að gera það — að hækka skattana þannig að sem minnst neikvæð áhrif hefði á efnahagslífið. Þessari aðstoð hefur algjörlega verið hafnað oftar en einu sinni. Menn töldu að þeir hefðu alla sérfræðiþekkinguna uppi í fjármálaráðuneyti og í ríkisstjórninni til að gera þetta. Ég hef fyrir þessu traustar heimildir.

Hér hafa verið til umræðu undanfarnar vikur, frá því að frumvörpin komu fram, áhrif þeirra á ráðstöfunartekjur heimilanna. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á að þeir sem hafa heildartekjur um 270.000 kr. eða lægri komi betur út úr þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar en verið hefði. Eins og ég gat um í andsvari mínu rétt áðan er þetta rangt, þetta stenst enga skoðun. Staðreyndin er sú að samkvæmt gildandi lögum á persónuafslátturinn að færast upp til verðlags núna um áramótin. Það er algjörlega kristaltært vegna þess að hér er um reiknanlegar staðreyndir að ræða, við getum bara reiknað okkur til niðurstöðu í þessu, að ef þetta næði fram að ganga samkvæmt gildandi lögum kæmi það betur út fyrir láglaunafólk í landinu en þessi aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar. Við getum síðan deilt um það hvort ríkið hafi efni á að láta persónuafsláttinn færast upp til verðlags um áramótin eða ekki. En það er óboðlegt að ríkisstjórnin komi fram með þessar aðgerðir sínar, haldi fram þessari rangfærslu og bjóði upp á það við kynningu á jafnmikilvægu máli og þessu að umræðan sé leidd af röngum forsendum.

Ég held að samt sem áður sé mjög einföld skýring á því hvers vegna ríkisstjórnin hefur viljað halda þessu á lofti og gert lítið úr því að hún er að afnema vísitölutengingu persónuafsláttarins. Ástæðan er sú að þeir tveir flokkar sem núna eru í ríkisstjórn hafa í svo langan tíma og svo oft bent á Sjálfstæðisflokk og á sínum tíma Framsóknarflokkinn og sagt: Þessir flokkar hafa níðst á láglaunafólki í landinu með því að láta þennan sama persónuafslátt ekki fylgja verðlagi. Einhver mesta gagnrýnin sem færð hefur verið fram á skattstefnu fyrri ríkisstjórna snerist nákvæmlega um þetta atriði. Það var samt þannig árið 2007 að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hrintu þessari breytingu í framkvæmd, tengdu persónuafsláttinn við vísitölu og ákváðu reyndar síðan í fyrra að bæta 7.000 kr. ofan á persónuafsláttinn í þremur áföngum til viðbótar við vísitölutrygginguna. Þess vegna er ekkert skrýtið að þegar þessir tveir flokkar, sem hafa haft svona hátt um skattstefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins grípa til aðgerða sem ganga þvert á þessi stóru orð, hlaupi menn dálítið út undan sér, detti í þann pytt að halda fram röngum upplýsingum, röngum niðurstöðum, fara með rangt mál og kannast ekkert við aðgerðir sínar. Þetta er samt sem áður afskaplega aumkunarvert.

Ég ætla að lýsa því hér að lokum, þar sem ræðutíma mínum er brátt lokið, að ég skil einfaldlega ekkert í umræðunni um að á undanförnum árum hafi skattbyrðin á Íslandi vaxið svo mikið að sett hafi verið heimsmet, skattbyrðin á undanförnum 10 árum hafi sett einhvers konar met í öllum útreikningum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hún hafi orðið sem hlutfall af landsframleiðslu með því hæsta sem gerist í heiminum. Þessu hefur oft verið haldið á lofti í umræðunni. Það sem ég skil ekki er þetta: Hvernig komast menn síðan að þeirri niðurstöðu í ljósi þessarar staðreyndar að það sé mikilvægt að hækka núna skatta? Hvernig komast menn að þeirri niðurstöðu? Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin horfir svona mikið til Norðurlandanna í mótun skattstefnu sinnar? Við vitum öll að á Norðurlöndunum er skattbyrðin hæst í heiminum. Við vitum líka að á Norðurlöndunum er skattbyrðin á þá sem eru með lág laun miklu meiri en á Íslandi. Persónuafslátturinn á Íslandi tryggir miklu hærra frítekjumark láglaunafólks en gildir annars staðar á Norðurlöndunum. Þess vegna skil ég ómögulega þá röksemdafærslu ríkisstjórnarinnar að nú sé mikilvægt að hækka skatta vegna þess að skattbyrðin hafi vaxið svo gríðarlega í tíð Sjálfstæðisflokksins.

Sömuleiðis er algjörlega óskiljanleg fullyrðingin um að ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks hafi rústað skattkerfið, skilið við það þannig að það skili ríkinu engum tekjum lengur, þess vegna sé svo mikil nauðsyn á að hækka skattana núna, þetta bara dugi ekki, ríkið sé rekið með miklum halla. Í hinu orðinu er sagt að skattbyrðin hafi vaxið mest í heiminum og sett heimsmet. Allar þessar fullyrðingar stangast á, það virðist vera (Forseti hringir.) alveg fullkomin rökleysa í veikri tilraun ríkisstjórnarflokkanna til að færa fram einhverja skynsamlega réttlætingu fyrir þessum aðgerðum.