138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:29]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Bara hækkunin á tryggingagjaldinu er áætlað að skili 12 milljörðum. Ég vil benda á að komið hefur fram að gert var ráð fyrir 150 milljarða kr. halla á þessu ári en núna virðist hann stefna í allt að því 200 milljarða. Ríkisstjórnin virðist ekki almennilega gera sér grein fyrir því hvernig hún ætlar að dekka bara þessa 30 milljarða. Þegar menn eru búnir að vera á kafi í Icesave virka 30 milljarðar ekki sérstaklega há upphæð.

En rannsóknin sem ég nefndi í fyrra andsvari mínu sneri að því að prófessorinn Kenneth Rogoff og Carmen Reinhart hafa skoðað efnahagskreppur allt að því 800 ár aftur í tímann. Þau fóru sérstaklega í gegnum þær kreppur sem hafa verið núna síðustu 100 árin. Þar kemur fram að skuldir ríkissjóðs, í þeim löndum þar sem banka- eða efnahagskreppa verður, aukast að meðaltali um 86%. Þau rekja þessa aukningu fyrst og fremst til kostnaðarins við kreppuna, ekki vegna þess að lagðir séu svo miklir fjármunir í að endurreisa bankakerfið eða eitthvað þess háttar heldur vegna þess að tekjustofnar ríkissjóðs hrynja. Við vorum þegar komin í þetta meðaltal 2008 þannig að það má alveg gera ráð fyrir að það muni bætast töluvert við skuldir ríkissjóðs ef þetta rætist, sem þessi sögulega rannsókn bendir til.

Það er líka bent á að landsframleiðslan í þeim löndum þar sem efnahagskreppa er dregst verulega saman og atvinnuleysi líka. Ég verð að segja að miðað við útgjaldaliðinn hjá ríkinu og þessar skattatillögur tel ég að það séu mjög miklar líkur á því að áætlunin gangi ekki eftir eins og menn eru að vonast til, og að hlutirnir muni líta mun verr út en áætlað er. Ég tel að þetta sé ekki raunhæft. Ég held því að það skipti mjög miklu máli að gera það sem hv. þingmaður talaði um, að skoða betur útgjaldahliðina, (Forseti hringir.) og við verðum líka að vera opin fyrir því að skoða nýjar skattatillögur.