138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins varðandi skattalækkanir fyrri ríkisstjórnar. Það sem var rangt við framkvæmd þeirrar skattalækkunar var tímasetningin. Lækkun skatta á þeim tíma samhliða þeim gríðarlega vexti einkaneyslu sem var í landinu, þar sem gengi krónunnar var allt of sterkt um þær mundir og framkvæmdastig hátt — ég tel eftir á að hyggja að við höfum farið of geyst. Það breytir því ekki að skattprósentan þarf ekki endilega að vera orðin of lág. Ég vék að því í máli mínu áðan að helsti vandi okkar væri á útgjaldahliðinni. Þess vegna tel ég að jafnvel þó að tímasetning þessarar skattalækkunar hafi ekki verið heppileg megi skattarnir eftir sem áður vel vera um það bil af þeirri skattprósentu sem við tókum ákvörðun um.

Við getum tekið hátekjuskattinn sem dæmi. Af hverju vildum við losna við hann? Vegna þess að hann var enginn hátekjuskattur. Vegna þess að hann var skattur á millitekjur. Það sést t.d. af tillögum ríkisstjórnarinnar sem nú liggja frammi að skattþrepin sem þar er um að ræða bera það með sér að við vorum á sínum tíma með hátekjuskatt á millitekjur af því að nú erum við komnir með skattþrep sem miðar við miklu hærri tekjur en við gerðum á þeim tíma.

Varðandi tekjujöfnunina þá held ég að þetta sé ekki góður tími til að fara að reyna að auka á tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins. Við erum auðvitað með mjög sterkt tekjujöfnunartól inni í skattkerfinu í dag sem er í gegnum frítekjumarkið og persónuafsláttinn sem tryggir að það eru í raun og veru óendanlega mörg skattþrep í skattkerfinu. Sá sem er með þúsund krónum meira en næsti í heildarlaun borgar hærra hlutfall af laununum sínum í skatt en sá sem er fyrir neðan.