138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:40]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég segi að skattalækkun fyrri ríkisstjórnar hafi ekki verið vel tímasett þá liggur í þeim orðum að lækkun skatta var vel framkvæmanleg en á þeim tíma var hún kannski óheppileg. Ef maður á að draga þetta saman í örstuttu máli held ég að það megi alveg eins halda því fram að mistökin hafi legið í því að við vorum að auka útgjöld ríkisins, hækka t.d. laun opinberra starfsmanna á almennum markaði allt of mikið á þessum sama tíma og þetta fór illa saman.

Vandinn við skattatillögur ríkisstjórnarinnar liggur ekki bara í því að menn eru að kynna til sögunnar nýja skatta og hækka suma, eins og t.d. tekjuskatta einstaklinga. Hann liggur líka í því að hér er verið að auka flækjustigið. Þegar ég er spurður að því hvort ég geti ekki tekið undir einhverjar af skattatillögum ríkisstjórnarinnar verð ég því miður að svara því neitandi, m.a. vegna þess að heildaráhrifin af þessum skattapakka sem við ræðum nú saman, þrjú frumvörp, eru slæm og flækjustigið er mjög aukið. Er það þá þannig að sjálfstæðismenn séu um alla framtíð á móti öllum skattahækkunum? Auðvitað er það ekki þannig. Auðvitað væri það á engan hátt í andstöðu við skattstefnu sjálfstæðismanna að virkilega háar tekjur bæru eitthvað hærra skatthlutfall en hinar lægri. En við erum reyndar með þannig kerfi í dag. Við erum með kerfi þar sem skatturinn vex sífellt eftir því sem tekjurnar eru hærri og einhverjar minni háttar stillingar á því væru í engu í andstöðu við þá skattaframkvæmd sem við höfum verið að fylgja. En meginatriðið er það að skattahækkanir við þær efnahagslegu aðstæður sem nú eru eru að okkar mati líklegar til að dýpka kreppuna.