138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:01]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var fróðlegt að fylgjast með svari hv. þingmanns. Ég veit ekki hvort æsti hann meira, sú tilhugsun að hugmyndin um að fara inn í lífeyrissjóðina væri óraunhæf (Gripið fram í: Hver segir það?) eða að ég minnti hann á að sá alvarlegi vandi sem við erum í núna sé m.a. að kenna slakri efnahagsstjórn Framsóknarflokksins á sínum tíma (Gripið fram í.) og hrunið sem við stóðum frammi fyrir í október og erum núna að hreinsa upp eftir langa valdatíð Sjálfstæðisflokks (Gripið fram í.) og Framsóknarflokks. Ég ætla ekki að víkja okkur samfylkingarfólki undan þeirri ábyrgð að hafa setið í ríkisstjórn einu og hálfu ári áður en þetta hrun varð. (Gripið fram í.)

Ég tek undir það með hv. þingmanni að sannarlega situr Samfylkingin í ríkisstjórn og ég leyfi mér að segja guði sé lof, því að í þessu uppbyggingarstarfi (BJJ: Guð blessi Ísland.) þurfum við að líta til framtíðar, við þurfum að hafa langtímahugsun en ekki þá skammtímahugsun sem einkennir jafnt Sjálfstæðisflokk sem Framsóknarflokk. (SDG: Icesave.) Ég heyri að hv. þingmenn í Framsóknarflokki kalla hér mjög fram í enda virðist þeim þykja þetta óþægilegt. Ég ætla líka að minna á að þeir voru svo sannarlega við völd í viðskiptaráðuneytinu þegar bankarnir voru einkavæddir. Það fer kannski (Gripið fram í.) að verða tímabært eftir þá löngu umræðu sem við höfum átt hér um Icesave og nú um fjárlögin að ræða og fá rannsókn á því hvernig einkavæðingu bankanna var háttað í helmingaskiptareglu Sjálfstæðisflokks og (Gripið fram í.) Framsóknarflokks.

Svo þætti mér líka ákaflega vænt um ef hv. þingmaður léti svo lítið að svara spurningu minni um hvort það kallast að standa vörð um lífeyrissjóðina að fara inn í þá með þeim hætti sem hann leggur til hér.