138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:03]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Svo ég svari spurningunni stuttlega tel ég að með því að hlífa almenna lífeyrissjóðakerfinu en að skoða séreignarsparnaðinn séum við ekki vega að íslenska lífeyrissjóðakerfinu.

Mig langar að halda aðeins áfram með sögu Samfylkingarinnar í þessum málum öllum. Hv. þingmaður hefur haldið því hér fram oftsinnis að hún sé að þrífa upp skítinn eftir Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Hver er skítur Samfylkingarinnar í þessari umræðu? Hefur Samfylkingin ekki borið höfuðábyrgð á því hvernig Icesave-samningarnir þöndust út? Voru hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Kristján L. Möller ekki þá í ríkisstjórn? Var þetta fólk ekki í ríkisstjórn á meðan á öllu þessu hruni stóð? (Gripið fram í.)

Menn horfðu upp á þessa reikninga belgjast út, þeir eru orðnir mörg hundruð milljarðar í dag, og svo kallar almenningur eftir að fólk axli ábyrgð. Hver er ábyrgð þessa fólks? Nei, það er gefið út á netinu — hvað heitir það, Rauði … (SDG: Rauði þráðurinn.) Rauði þráðurinn, spunaþráður Samfylkingarinnar — að Samfylkingin hafi bara ekkert komið nálægt þessu. Hvert er mesta hrunið og hver er mesti örlagavaldur okkar í dag? (Gripið fram í.) Það eru Icesave-samningarnir. Samfylkingin hefur verið að skerða kjör aldraðra og öryrkja. Það var fyrsta verkefni Samfylkingarinnar eftir að hún kom í ríkisstjórn. Nú á að hækka skatta um 50 milljarða á næsta ári á heimilin og fyrirtækin, og hvað kostar Icesave-klúður Samfylkingarinnar? 40 og eitthvað milljarða í vexti á ári. Þetta jafngildir nærri því þeim skattahækkunum sem Samfylkingin setur á aldraða og öryrkja. (Forseti hringir.) Og svo þykist þessi flokkur kenna sig við jöfnuð. (Gripið fram í.)