138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:19]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur verið vinsæll frasi í þessum sal að þakka ræðuhaldara fyrir áhugaverða ræðu og ég ætla að gera það sömuleiðis hér. Ég var sammála mörgu sem ræðumaður minntist á, ekki öllu, en þakka ber fyrir það sem vel er gert. Þess vegna langar mig að þakka hv. þm. Þór Saari fyrir umræðu um gjald fyrir auðlindir og þá sanngjörnu kröfu almennings að þeir sem fá úthlutað auðlindum okkar greiði fyrir það sanngjarnt gjald. Þar erum við hjartanlega sammála og ég hlakka til að við í Samfylkingunni, og Hreyfingin, tökum þá umræðu lengra á komandi kjörtímabili.

Ég held að við séum núna að taka fyrsta skrefið í þá átt og ég tel að við eigum það verkefni sameiginlegt að halda áfram. Alveg eins og menn borga fyrir heita vatnið, gufuna, eiga menn að borga fyrir fiskinn í sjónum því að hann er okkar verðmætasta auðlind.