138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir góða greinargerð fyrir þeim málum sem hann hefur lagt fram og hv. þingmönnum fyrir ágæt innlegg í þá mikilvægu umræðu sem fram undan er um þessi mál. Sannarlega er tíminn auðvitað orðinn býsna skammur til þeirrar mikilvægu umfjöllunar þegar komið er fram í desembermánuð. Það er ljóst að efnahags- og skattanefnd mun þurfa að halda vel á spöðunum til að geta farið í gegnum þær umfangsmiklu breytingar sem hér eru lagðar til á þeim skamma tíma. Verður hafist handa við það þegar í dag að lokinni þessari umræðu að setja þá vinnu í gang.

Almennt má um þennan skattapakka segja að hann er miklum mun léttari hvað varðar tekjuskatt almennings en ráð var fyrir gert í fjárlagafrumvarpinu. Hér er gert ráð fyrir 23 milljarða kr. lækkun á tekjuskatti frá því sem áætlað var í fjárlagafrumvarpinu og það stafar af bættum aðstæðum í efnahagslífi þjóðarinnar og í fjármálum ríkissjóðs og nemur sem svarar 230.000 kr. fyrir hvert heimili í landinu í lægri tekjuskatti en áformað var í fjárlagafrumvarpinu. Engu að síður mun tekjuskattur aukast. Þetta er sérstakt fagnaðarefni því að þær kröfur um aðhald á tekjuhliðinni sem uppi voru við framlagningu fjárlagafrumvarpsins voru alveg á mörkum hins gerlega. Það er mikið ánægjuefni að tekist hefur að draga úr þessari þörf því að sannarlega er engu að síður talsvert lagt á heimilin í landinu. Ég verð þó að segja að á tekjuskattshliðinni, held ég, miðað við þær erfiðu aðstæður sem við erum að glíma við verði að teljast mjög viðunandi að hafa tekist að skipa málum þannig að tekjur undir 270.000 kr. séu varðar og að við hin sem erum yfir 270.000 kr. á mánuði fáum þó ekki á okkur meiri hækkanir en sem nemur 0–2% af tekjum okkar.

Auðvitað kemur það misilla við heimilin í landinu sem mörg hver mega ekki við neinu, en ég held að okkur sé öllum ljóst að staðan er erfið, hún er ströng og það verður ekki úr henni leyst nema það leggist á marga og margir komi að því að leggja ríkissjóði lið í þessum mikla og erfiða leiðangri. Þegar tekið er tillit til þessara aðstæðna sést að í tekjuskattinum eru varðar tekjur undir 270.000 kr. sem fá þá ekki hækkun á tekjuskatti á næsta ári þrátt fyrir mestu erfiðleika í ríkisfjármálum í sögunni og það að hækkunin er allt að 2% á aðra tekjuhópa verður að teljast viðunandi.

Ég lýsi líka ánægju minni með það að gert er ráð fyrir því í fjármagnstekjuskattinum að ekki sé farið í umfangsmiklar kerfisbreytingar á því kerfi. Okkur hefur þótt það að mörgu leyti gefa góða raun að hafa það kerfi allt einfalt og almennt og hafa skattprósentu þar heldur lægri en ekki flóknar reglur um frádrætti og hvað teljast eigi til tekna og hitt sem ekki eigi að teljast til tekna heldur hafa einfaldlega eina prósentu á allar fjármagnstekjur. Hún hækkar núna verulega, enda hefur skattur á fjármagn verið lágur. Hún fer í 18%, en þess má geta að hinar upphaflegu tillögur Alþýðusambands Íslands um fjármagnstekjuskatt hljóðuðu einmitt upp á það snemma á síðasta áratug, 18% hygg ég vera. Þegar við horfum á verðbólguvæntingar næsta árs lætur nærri að sú skattlagning á brúttófjármagnstekjur, þ.e. bæði þær verðbætur sem fólk fær og vaxtatekjur, sem sagt raunvaxtaþátturinn sé kominn býsna nærri hinni almennu tekjuskattsprósentu. Þar með er í raun og veru búið að taka talsvert skref til þess að jafna á milli skattlagningar á launatekjur annars vegar og hins vegar á fjármagnstekjur.

Hér hefur aðeins verið nefnd sú kerfisbreyting sem gert er ráð fyrir að fara í og hefur verið að undangenginni umtalsverðri umræðu og skoðun, ekki bara í ár, heldur um langt árabil, gamalt baráttumál m.a. Alþýðusambandsins, um að innleiða þriggja þrepa skattkerfi.

Spurt hefur verið í umræðunni hvort ekki hefði mátt ná svipuðum markmiðum með því að halda sig við núverandi kerfi, þ.e. það tveggja þrepa kerfi sem við erum í raun og veru með frá því í sumar, með sérstöku hátekjuþrepi, með því einfaldlega að hækka persónuafsláttinn eins og lög gera ráð fyrir og síðan hækka hina almennu tekjuskattsprósentu um kannski 2,3%. Það má til sanns vegar færa að í öllum aðalatriðum kæmi það út með svipuðum hætti, nema hvað að hópur lágtekjufólks kemur sannarlega betur út úr þessu fyrirkomulagi en hinni leiðinni. Þó að mönnum kunni að þykja það lágar upphæðir er það einmitt þar sem lágar upphæðir skipta verulegu máli.

Þriggja þrepa skattkerfi eru býsna útbreidd í okkar heimshluta, hér í Evrópu. Þau hafa að mörgu leyti þótt gott tæki til tekjujöfnunar og þó að hér séu ekki gerðar neinar kollsteypur á því hvernig tekjuskattsbyrðinni er dreift með hinu nýja kerfi gefur það tækifæri til þess þegar til lengri tíma er litið að auka tekjujöfnunaráhrifin, einkanlega ef hægt er að ná fram áformum eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst áhuga á um það að lækka prósentuhlutfallið í neðsta þrepinu þegar hagur strympu, þ.e. ríkissjóðs Íslands, vænkast og við verðum komin í gegnum þessa erfiðleika. Þá verður ríkissjóður betur í færum til að auka enn á tekjujöfnunina í gegnum skattkerfið með því að hafa þriggja þrepa kerfi til þess.

Ein af stóru ástæðunum fyrir því að það tekst að hlífa tekjuskatti einstaklinga svo mikið sem raun ber vitni er sú að víða er leitað fanga. Aðeins um fjórðungur af tekjuöflunarþörfinni er borinn af tekjuskatti einstaklings. Þrír fjórðu hlutar af tekjuöflunarþörfinni eru sóttir annað, að verulegu leyti til auðlinda- og umhverfisgjalda og sömuleiðis gjalda sem atvinnulífið ber í gegnum tryggingagjald. Þar er um að ræða ótvíræð framfaraskref að mínu áliti í skattheimtunni þar sem verið er að taka tekjur í sjóði almennings af þeim auðlindum sem okkur verður gjarnan tíðrætt um að íslenskur almenningur eigi, og eigi að njóta afraksturs af. Þess vegna er mikilvægt grundvallaratriði að við búum svo um í lagasetningu að sá réttur okkar til að almenningur hafi arð af orkuauðlindum landsins sé alveg skýr og ótvíræður, að við höfum það skattlagningarvald og að við getum með skattlagningu á auðlindir okkar létt á tekjusköttum okkar. Hver króna sem tekin er inn í auðlinda- og umhverfisgjöldum dregur úr þörfum fyrir hækkanir á tekjusköttum og sömuleiðis á því sem ber talsverðan hluta af þessari tekjuöflun sem er óbeinu skattarnir, bæði breytingar í virðisaukaskatti, vörugjöldum og síðan endurskoðun á margvíslegum gjöldum í ríkiskerfinu.

Í þessum nýju auðlinda- og umhverfisgjöldum er ekki síst mikilvægt að umhverfissjónarmið koma inn í skattlagninguna. Ég held að það sé sannarlega þáttur sem muni, ekki bara á Íslandi, heldur víða um heim, vega æ þyngra í skattlagningunni. Það eru hin svokölluðu grænu gjöld, gjöld sem eru til þess gerð að hvetja atvinnulífið og almenning, skapa almenn skilyrði sem hvetja til þess að menn dragi úr mengun, breyti lífsháttum sínum, eða starfsháttum í tilfelli fyrirtækja, breyti verkferlum og framleiðsluferlum þannig að þeir mengi ekki og skaði ekki umhverfið. Kolefnisgjaldið sem hér er kynnt til sögunnar gegnir þar einmitt mikilvægu hlutverki.

Fyrir utan þessar stærstu og helstu skattbreytingar er hreyft ýmsum öðrum breytingum á lögum um tekjuskatt, sumum raunar býsna tæknilegs eðlis sem óvíst er að tóm gefist, í þeim tímaramma sem við erum að vinna þessi mál, til að kanna nægilega ítarlega til að þau megi gera að veruleika. Ég tel þó að allar stærstu breytingarnar og tekjuöflunin sem hér um ræðir hafi á undanförnum vikum og mánuðum fengið býsna mikla og almenna kynningu, bæði úti í samfélaginu, í samráði við aðila vinnumarkaðarins og fjölmarga aðra aðila, og í hinni pólitísku umræðu. Umræðan um þessar skattkerfisbreytingar er þegar orðin býsna þroskuð og efnahags- og skattanefnd mun njóta þess í sinni vinnu að hugmyndirnar eru ekki að koma fram fyrst núna, heldur hafa þær verið kynntar fyrir allnokkru og leitað eftir viðbrögðum frá hagsmunaaðilum og eftir atvikum leitað leiða til að sætta sjónarmið. Það hefur verið dregið úr ýmsum hugmyndum sem farið var með fram í upphafi til að sætta sjónarmið í þessu efni.

Þar er þó einn þáttur sem enn er ólokið og hæstv. fjármálaráðherra nefndi í ræðu sinni, enn standa yfir viðræður við lífeyrissjóðina í landinu. Ég tel mjög mikilvægt að þeim viðræðum verði lokið sem hluta af þessari vinnu því að þar hafa komið fram ýmsar hugmyndir sem full ástæða er til að skoða þegar skattheimta af þeirri stærðargráðu sem við erum að ræða er annars vegar. Ég vil sérstaklega nefna þar skattlagningu séreignarsparnaðar sem er í sjálfu sér bara frestun á skattgreiðslum fólks af sparnaði og alla jafna staðgreiðum við skatta af þeim fjármunum sem við leggjum til hliðar og ætlum að spara til síðari tíma þannig að það er ekki umbylting, að ég hygg, á neinum grundvallaratriðum neins kerfis þó svo að sú skattfrestun sé tekin til endurskoðunar í viðræðum við lífeyrissjóðina. Það er nærtækt að álykta að sá stóri og öflugi aðili sem lífeyrissjóðirnir í landinu eru komi með einum eða öðrum hætti að því risavaxna verkefni sem við stöndum andspænis, einfaldlega þannig að ekki þurfi að leggja of þungar byrðar á annars staðar svo fram úr hófi keyri.

Hér er líka að verulegu leyti fyrst og fremst verið að kalla til baka skattalækkanir sem ráðist var í hér í hámarki góðærisins og voru illa tímasettar. Ríkissjóður hefur einfaldlega ekki efni á þeim og ég held að við eigum að horfa á það þeim augum að flest þau gjöld og þær skattprósentur sem við sjáum eru einfaldlega ekki hærri en við höfum áður séð, raunar lægri flestar en við höfum áður séð í íslensku samfélagi. Við réðum við það þá og það verður að telja líkur til þess að við ráðum við það verkefni núna.

Eitt af því sem hér er tekið til endurskoðunar er skattbreyting sem við í Samfylkingunni stóðum ótrauð að á síðasta kjörtímabili í því skyni að lækka m.a. matvöruverð í landinu, en ýmislegt annað flaut með. Það var þegar ráðist var í að lækka neðra virðisaukaskattsþrepið úr 14% í 7%. Ég held að þegar menn skoði tekjuöflunarmöguleika ríkissjóðs til lengri tíma og efnahagshorfurnar fram undan hafi einfaldlega sú aðgerð verið ein af þeim skattaaðgerðum sem varla var innstæða fyrir af hálfu ríkissjóðs. Hér eru m.a. tekin ákveðin skref til að endurskoða þær skattalækkanir. Ég geri ráð fyrir að þær breytingar verði áfram til skoðunar fram eftir kjörtímabilinu.

Virðulegur forseti. Að lokum ítreka ég ánægju mína með að hæstv. fjármálaráðherra hafi tekist að vinna úr málum frá því að frumvarpið kom fram og að þau jákvæðu teikn séu nú á lofti um hag ríkissjóðs og stöðuna í efnahagsmálum almennt, að það hafi tekist að draga úr kröfunni á tekjuskattinn um 23 milljarða kr. frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Það er gríðarlega mikilvægt því að það verður auðvitað, og það vitum við öll í þessum sal, að hlífa heimilunum í landinu eins og nokkur kostur er við óhóflegum byrðum þó að ekki verði hjá því komist að hækka skatta víðast hvar í íslensku samfélagi þegar við stöndum frammi fyrir því risavaxna verkefni sem hallarekstur ríkissjóðs er.