138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú eins og um svo margt í umræðum um skattamál að það fer nokkuð eftir því við hvað er miðað.

Það er vissulega rétt að ef lagaákvæðum og þeim atriðum sem samið var um sérstaklega, um umframhækkanir á persónuafslætti, væri fylgt að fullu mundi persónuafslátturinn hækka um 5.500 kr. um áramótin. Það hefði, eins og kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra hér fyrr í umræðunni, leitt til 9 milljarða útgjaldaaukningar fyrir ríkissjóð sem hann hefði aftur þurft að sækja sér með aukinni skattheimtu.

Í fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram 1. október var hins vegar ekki gert ráð fyrir því að vísitöluhækkanir eins og þær sem gert var ráð fyrir í persónuafslættinum, eða í almannatryggingakerfinu, eða í raun og veru nokkru öðru kerfi, kæmu til framkvæmda. Ég held að það hafi bara verið almennur skilningur á því í samfélaginu að við þessar aðstæður geti sjálfvirkar hækkanir tengdar vísitölum á útgjöldum ríkissjóðs einfaldlega ekki komið til framkvæmda, vegna þess að hér væri við svo gríðarlega mikinn vanda að eiga. Ég held að út af fyrir sig hafi verið nokkuð þverpólitískur skilningur á því.

En það held ég að sé þó fagnaðarefni að frá því að fjárlagafrumvarpið kom fram og nú þegar kröfunni á tekjuskattinn hefur verið létt um eina 23 milljarða kr. hefur skapast svigrúm til þess að hækka persónuafsláttinn sem ekki var gert ráð fyrir í frumvarpinu um 2.000 kr. á mann á mánuði og það mun koma hinum tekjulægstu vel.

Það er rétt að hér er verið að verja tekjur undir 270.000 kr. þó að hitt sé svo aftur líka rétt að ef persónuafslátturinn hefði verið bættur að fullu og leiðréttur líka að nokkru aftur í tímann, með 2.000 kr. hækkuninni, (Forseti hringir.) hefði hann lækkað meira ef þannig hefði verið á málum staðið. En ég held (Forseti hringir.) að það sé óraunsætt að menn hefðu haft efni á því.