138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:46]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Eftir rúmlega 10 mínútur er að hefjast hér á Austurvelli útifundur sem haldinn er á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna og félags sem kallar sig Nýtt Ísland. Þar verður farið yfir þau mál sem brýnast snúa að stórum hluta almennings hér á landi. Mig langar því að gera það að tillögu minni að hæstv. forseti fresti þingfundi á meðan sá fundur fer fram, þannig að þingmenn geti komist aðeins út í ferskt loft og hlýtt á ræður fólks sem bera keim af því sem raunverulega er að gerast hjá almenningi. Við höfum ekki komist mikið út úr dyrum undanfarna daga vegna umræðu um önnur mál og mig langar einfaldlega að leggja þetta til. Þetta gæti hugsanlega verið hálftíma til klukkutíma frestun á þingfundi.