138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og ég held að við séum sannarlega sammála um að mikilvægt er að samdrátturinn í efnahagslífinu verði ekki of mikill. Það skiptir líka máli á hvaða sviðum við ætlum að örva það og ég held að mestu varði að örva efnahagslífið í verðmætasköpun í atvinnulífinu sjálfu með því að stuðla að og greiða fyrir ýmiss konar framkvæmdum og nýsköpun í atvinnulífinu með því að skapa þar ný störf sem geta skapað vinnu fyrir fólk, sem er auðvitað mikilvægt félagslega og bara í lífinu yfir höfuð, en líka mikilvægt tekjulega fyrir það fólk og einnig hvað varðar útgjöld ríkissjóðs.

Um aðgerðirnar held ég að við séum að ýmsu leyti sammála, ég og hv. þingmaður, að sumt af þeim hefði kannski mátt koma fyrr eftir hrunið vegna þess að kannski vikum við okkur undan því næst eftir það að taka ýmsar ákvarðanir sem þá hefði verið rétt að taka. En það voru algjörlega einstæðir tímar sem þá voru uppi.

Ég hlýt þó að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki, þegar allt er virt, að þær breytingar á tekjusköttum á almenningi sem verið er að boða í þessum málum, sem fela í sér að skattar fólks með undir 270 þús. kr. muni ekki hækka á næsta ári frá því sem núna er, að skattar á okkur hin hækki um 0–2% af tekjum okkar, hvort hann telji ekki að þær skattahækkanir séu í ljósi þeirra miklu áfalla sem dunið hafa yfir og kannski í ljósi þeirra hugmynda eða þess ótta sem menn höfðu um framtíðina fyrir ári síðan, miklum mun hóflegri en ástæða var til að óttast og í raun (Forseti hringir.) í anda meðalhófs miðað við þá erfiðu stöðu sem ríkissjóður er í.