138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:36]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á dögunum birtist grein þar sem skattkerfi heimsins voru flokkuð í hægri og vinstri sinnuð kerfi. Ég sendi höfundi þessarar greinar mynd, sem því miður er ekki hægt að sýna í þingtíðindum, sem sýnir að sú skattbreyting sem á sér stað núna gerir eiginlegt skatthlutfall brattara en áður, en hún er mjög í anda eða svipuð í laginu og skattkerfin á Norðurlöndunum, líkt og núverandi kerfi. Ég benti höfundinum á þetta, fræðimanninum sem var vitnað til, og hann viðurkenndi að þetta væri rétt hjá mér að þetta væri ekki eðlisbreyting á skattkerfinu og sér til afsökunar sagði hann: Ja, norrænu kerfin eru hægri sinnuðustu kerfi í heimi. Þannig sneri hann sig út úr því. Ég held og skal sýna hv. þingmanni fram á að sú breyting á kerfinu sem er verið að gera núna er ekki sú breyting sem vinstri menn hafa verið að predika um, alls ekki. Svo mörg voru þau orð og ég held að ég hafi ekkert meira um það að segja.