138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:14]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Það er reyndar svo að þegar lánin hækka vegna vísitölutenginga þyngist greiðslubyrðin. Það er einfaldlega þannig, annars skipti þetta auðvitað ekki máli.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn útfærir ekki einstakar skattbreytingar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir kröfu um visst aðhald en skiptir sér ekki af því hvernig komið er að skattkerfisbreytingum eða niðurskurði vegna þess, eins og þeir lýsa yfir sjálfir, að þeir skipta sér ekki af tekjudreifingunni í hverju landi.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri ekki rétti aðilinn til að hjálpa okkur með þær tæknilegu breytingar sem eru á skattkerfinu. Þar er einfaldlega ekki sú þekking sem þyrfti til. Aftur á móti höfum við aðgang að OECD og OECD hefur skattasérfræðinga á sínum vegum sem þekkja vel skattareglur innan OECD. Hér er verið að hrinda í framkvæmd, og var hrint í framkvæmd í sumar, tæknilegum breytingum sem ég nefndi dæmi um, eins og afdráttarskattar, eins og skattlagning á skuldsettum yfirtökum o.s.frv., o.s.frv. Þarna hefði ég talið að starfsmenn fjármálaráðuneytisins hefðu átt að fá ráðgjöf og hjálp frá OECD og þá hefði kannski verið afstýrt svona klaufalegum gjörðum, vegna þess að það er verið að gera hluti, sem voru meinlokur hjá vissum mönnum, sem ganga ekki upp og bara flækja kerfið og geta haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar. Það er þetta sem ég var að benda á og ég mundi hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að nýta sér þá þekkingu sem er innan OECD í þessum efnum.