138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega hárrétt hjá hv. þingmanni að þegar höfuðstóll verðtryggðra lána hækkar þá hækkar greiðslubyrðin, en þannig virkar verðtryggingin á löngu verðtryggðu láni að það dreifist auðvitað yfir mjög langan tíma og er stundum nefnt sem einn af kostum þess fyrirkomulags þrátt fyrir fjölmarga galla á móti.

Varðandi ráðgjöf erlendis frá er ég alveg sammála hv. þingmanni, ég held að OECD sé þrátt fyrir allt miklu vænlegri kostur í þeim efnum og þar er mikla sérfræðiþekkingu að finna í þessum efnum sem og náttúrlega hefur hliðsjón af evrópskum reglum. Við lítum gjarnan til Norðurlandanna þegar við berum okkur saman og aðlögum okkar löggjöf að nýjum tímum. Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að það er stuðst heilmikið við vinnu frá Efnahags- og framfarastofnuninni og það kemur fram hér í gögnum að það er bæði vitnað í OECD og evrópskar reglur varðandi t.d. skattlagningu fyrirtækja og fleira.

Ein meginráðgjöf OECD til Íslendinga eftir hrunið, hver er hún, hver var hún í síðustu skýrslu? Að taka til baka allar skattalækkanir áranna 2003–2007. OECD segir einfaldlega: Þetta var óskynsamlegt, þið hafið ekki aðstöðu til að viðhalda þessum miklu skattalækkunum sem þarna var gripið til og þær eiga bara að ganga til baka. Við erum ekki að fara nálægt því alla þá leið, eins og glöggt sést þegar hlutföll skatta af vergri landsframleiðslu eru skoðuð, en við erum að leggja af stað eitthvað í áttina til baka, það er óumflýjanlegt.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna OECD hér til sögunnar og þangað er að sækja ráðgjöf í þessum efnum, sem rímar að vísu ekki alveg beinlínis við niðurstöðu Sjálfstæðisflokksins sem vill fyrst og fremst fara aðrar leiðir en þær að hækka núgildandi skattstofna og grípa til væntra tekna ríkis og sveitarfélaga út úr lífeyrissjóðakerfinu, sem er hlutur sem ég hef reyndar sagt eins og fleiri hér í umræðunum að við höfum í engu lokað á. Við höfum rætt og erum að ræða við lífeyrissjóðina um mögulega aukna þátttöku þeirra í því verkefni okkar (Forseti hringir.) að koma ríkisbúskapnum og þjóðfélaginu aftur á réttan kjöl.