138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[17:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi. Þetta er stórt mál og mikið í sniðum, en þar sem ræða hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra síðan í sumar er mér enn í fersku minni ætla ég ekki að fara nákvæmlega í það atriði.

Þær breytingar helstar sem ég rek augun í við færsluna frá sumarþingi og hingað eru annars vegar að lagt er bann við að taka eigin hlutabréf að veði og hins vegar að ekki megi reka félög í vátryggingastarfsemi sem fjárfestingarsjóð sem rekin sé í þágu eigenda. Ef þetta er það sem tíðkast í vátryggingastarfsemi í löndunum í kringum okkur geri ég ekki athugasemdir við þetta en aftur á móti, eins og ég hef varað við bæði í lögum um ársreikninga, um bókhald, endurskoðun og annað slíkt, er mikilvægt að búa ekki til séríslenskar reglur vegna sérstakra tilvika sem hafa orðið á Íslandi heldur miða okkur við það sem gerist í hinu alþjóðlega umhverfi þannig að íslenskt athafnalíf einangrist ekki með einhverjar sérlundaðar sérreglur.

Ég vildi vekja athygli á þessu og hvet viðskiptanefnd til að leita fordæma um hvort þetta gildi almennt í lögum um vátryggingastarfsemi í löndunum í kringum okkur eða þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við áður en málið fer til 2. umr.