138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

fjármálafyrirtæki.

258. mál
[17:16]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem er 258. mál þingsins á þskj. 294. Með frumvarpinu er lögð til breyting á 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki sem lýtur að lengingu frests til að höfða mál til riftunar á ráðstöfunum fjármálafyrirtækja sem eru í slitameðferð.

Í 4. mgr. 103. gr. núgildandi laga um fjármálafyrirtæki kemur fram að krefjast megi riftunar á ráðstöfunum fjármálafyrirtækis eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti ef ekki er sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu. Þær reglur sem vísað er til að gildi um riftun ráðstafana er að finna í XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, m.a. í 148. gr. laganna. Samkvæmt 148. gr. gjaldþrotaskiptalaga er frestur til að höfða dómsmál til að koma fram riftun á ráðstöfunum þrotamanns sex mánuðir frá lokum kröfulýsingarfrests.

Í frumvarpinu er lagt til að frestur til að höfða riftunarmál vegna gerninga fjármálafyrirtækja verði lengdur í 24 mánuði úr sex mánuðum. Þau sjónarmið sem búa að baki lengd tímafrests í gjaldþrotaskiptalögum eiga ekki að öllu leyti við í slitameðferð fjármálafyrirtækja. Rannsókn og undirbúningur vegna riftunarmála við slitameðferð fjármálafyrirtækja getur verið gríðarlega umfangsmikill og því óraunhæft að slitastjórnir hafi svigrúm til að rannsaka öll gögn og höfða dómsmál innan sex mánaða frestsins.

Ákvæði XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki um slit fjármálafyrirtækja byggjast á því að jafnræðis kröfuhafa sé gætt við slit fjármálafyrirtækja og lýtur sú breyting sem nú er lögð til að því að ná sama markmiði. Heimildir laga um riftun gerninga hafa það að markmiði að gæta jafnræðis kröfuhafa, þ.e. að einstakir kröfuhafar séu ekki betur settir en aðrir vegna ráðstafana fjármálafyrirtækis áður en slitameðferðin hófst. Í ljósi umfangs margra fjármálafyrirtækja, m.a. þeirra sem nú eru í slitameðferð, má telja víst að verði frestur til að koma fram málshöfðun til riftunar á gerningum ekki lengdur séu miklar líkur á að markmið um jafnræði kröfuhafa fari forgörðum.

Ég legg til, frú forseti, að máli þessu verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.