138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:35]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér ríkisábyrgðina á Icesave-lánunum illræmdu. Ég hef nú þegar farið yfir nokkur atriði í þessu máli. Ég hef farið yfir muninn á föstum og breytilegum vöxtum, ég hef farið yfir gengisforsendur Seðlabankans, ég hef farið yfir hagvaxtarforsendur Seðlabankans og ég hef farið yfir hverjar gætu verið efnahagshorfur í heiminum á næstu árum, sérstaklega með tilliti til þess sem hefur verið að gerast í Miðausturlöndum, auk annarra atriða.

Í þessari ræðu hef ég hug á að ræða aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þessu máli og hvernig það kom til að bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og lán Norðurlandanna og reyndar fleiri landa blandaðist inn í Icesave-málið. Þannig var að síðasta haust þegar það lá fyrir að gerðar voru miklar kröfur á okkur Íslendinga um að gangast í ábyrgðir fyrir hina svokölluðu Icesave-reikninga sem Landsbanki Íslands hafði tekið á móti þá var sett mikil pressa á okkur Íslendinga. Þetta byrjaði frekar létt sem pressa frá Hollendingum og Bretum en vegna þess ástands sem var í heiminum og sérstaklega í Evrópu varð það fljótt að helsta áhugamáli Evrópuþjóða að Íslendingar viðurkenndu þá skyldu sína, sem þeir kölluðu svo, að gangast í ábyrgðir fyrir innlánstryggingarsjóðinn.

Nú er það svo að Ísland er aðili að þjónustutilskipun Evrópusambandsins vegna þess að við erum partur af EES-svæðinu og með tilskipun um starfsemi fjármálafyrirtækja hafa Íslendingar eins og önnur EES-ríki leyfi til að vera í fjármálastarfsemi yfir landamæri. Vegna þessa setti Evrópusambandið tilskipun um hvernig innlánstryggingum ætti að vera háttað á svæðinu. Hún gengur í stuttu máli út á það að öll aðildarlöndin, hvert og eitt, eiga að vera með innlánstryggingarsjóð og það er kveðið á um hvernig útlitið á þeim sjóði eigi að vera en það er ekki kveðið á um að það sé ríkisábyrgð á sjóðnum. Það hefur verið seinni tíma túlkun hjá Evrópusambandinu að þar sé um einhvers konar ríkisábyrgð að ræða og Íslendingar hafa ávallt hafnað því en þrátt fyrir það gengist undir það að ganga frá þessu máli þannig að Íslendingar taki ábyrgð á innlánstryggingarsjóðnum á sig.

Í október í fyrra voru Íslendingar þvingaðir til að undirgangast það að greiða Hollendingum og Bretum til baka það sem þeir höfðu lagt út eða mundu leggja út fyrir vegna innlánstrygginga og það var gert með bolabrögðum. Það byrjaði á því að Hollendingar og Bretar beittu sér í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þann hátt að málefni Íslands, þ.e. það samkomulag sem Ísland og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerðu með sér um að sjóðurinn kæmi hér til hjálpar bæði með tæknilegri aðstoð og fjárhagsaðstoð, var stöðvað í stjórn sjóðsins þannig að það fékkst ekki tekið fyrir.

Þetta olli miklum óróa meðal starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en Hollendingar og Bretar náðu, reyndar með hjálp Þjóðverja á sínum tíma, að sameina Evrópusambandið inni í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að ekkert yrði gert fyrir Íslendinga fyrr en þeir undirgengjust þessa ábyrgð. Síðan var það á fundum í Evrópu á vegum Evrópusambandsins sem Íslendingar voru þvingaðir til að skrifa undir þetta margfræga „Memorandum of Understanding“ þar sem fram kom að Íslendingar ættu að greiða þessar skuldbindingar til baka á að mig minnir tíu árum með 6,7% vöxtum. Þetta hefur verið túlkað af stjórnarflokkunum sem samningurinn sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi gera við Hollendinga og Breta, sem er náttúrlega alrangt.

Nokkrum dögum seinna hringdi þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, í forsætisráðherra eða fjármálaráðherra Hollendinga og sagði að við mundum ekki standa við þetta blað, þetta væru afarkostir sem ekki væri hægt að byggja á. Það er skemmst frá því að segja að Evrópuþjóðir beittu sér með fautaskap gegn Íslandi inni í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem er sögulegt í mörgu tilliti vegna þess að Íslendingar voru stofnaðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Bretton Woods og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var stofnaður til að koma til hjálpar löndum sem lentu í erfiðleikum vegna aðstæðna á gjaldeyrismörkuðum. Það var algjörlega ljóst við stofnun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans að þetta áttu að vera stofnanir sem kæmu til hjálpar en væri ekki hægt að beita í tvíhliða deilum á milli ríkja, sem sagt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn mundu ekki skipta sér af tvíhliða deilum.

Þessu var öllu snúið á haus í október í fyrra og Hollendingar og Bretar, eins og ég hef sagt áður, söfnuðu um sig liði í Evrópu og þeir segja með eftiráskýringu, og hugsanlega er það rétt, að það hafi verið vegna hræðslu við það að ef í ljós kæmi að Íslendingar stæðu ekki í skilum með greiðslur til innlánseigenda í Bretlandi og Hollandi gæti það skapað áhlaup á bankakerfi Evrópuríkjanna og innlánstryggingakerfið mundi liðast í sundur og þar af leiðandi væri hætta á að bankakerfi Evrópu gæti hrunið. Þetta hljómar allt mjög sennilega og ég efast ekki um að þetta sé rétt en það er aftur á móti merkilegt að þjóðir sem við höfum kallað vinaþjóðir okkar skuli hafa beitt okkur þessum brögðum og að í staðinn fyrir að þjóðir Evrópu kæmu sér saman um að þetta væri stór ágalli í evrópska regluverkinu, og þeim stafaði hætta af þessum ágalla, þá hafi verið tekin ákvörðun um að fórna Íslandi.

Þessi skoðun sem ég lýsi hér er að koma svolítið upp á yfirborðið í Evrópu. Meðal annars birtir fyrirbæri sem heitir Brussel Journal grein í dag þar sem fram kemur sú túlkun að Íslandi hafi verið fórnað og að Evrópa hafi þarna afneitað sinni ábyrgð á hlutunum. Þetta er merkilegt í ljósi þess sem er að gerast á hinu háa Alþingi að stöðugt fleiri eru að komast á þá skoðun að e.t.v. liggi þetta ekki jafnljóst fyrir og margir vilja vera láta að Íslendingar eigi að greiða þessar upphæðir þrátt fyrir að við viljum í anda góðrar samvinnu við vinaþjóðir okkar semja á einhvern hátt um þetta. Kannski hefur Ísland verið barnalegt í þessum samskiptum öllum og stjórnvöld (Forseti hringir.) glutrað niður þeim tækifærum sem gáfust til að ganga frá málinu á góðan hátt fyrir alla Íslendinga.