138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:56]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það er betra að skulda minna en meira en við verðum samt að hafa þessar tölur nokkurn veginn í réttu samhengi. Nú er rætt um það að erlendar skuldir þjóðarbúsins, brúttóskuldir, séu ríflega 300%. Hvort þær eru 310 eða eitthvað aðeins meira eða minna vitum við því miður ekki alveg fyrir víst en hitt er alveg ljóst að þessi tala sker sig ekkert mjög úr í vesturevrópsku samhengi. Fjölmörg Vestur-Evrópulönd eru með sambærilegar brúttó erlendar skuldir og er það eiginlega bara mælikvarði á hversu alþjóðlegt fjármálakerfi viðkomandi landa er. Til samanburðar verðum við að hafa í huga að áður en íslenska bankakerfið hrundi var þessi tala orðin um eða yfir 1.000%.

Miklu mikilvægari tölur eru annars vegar brúttóskuldir þjóðarbúsins að slepptu því sem hvílir nú á hinum föllnu bönkum og verður ekki greitt nema að einhverjum mjög takmörkuðum hluta. Seðlabankinn birti tölur um þetta fyrir rétt um viku og þá kom í ljós að brúttóskuldir þess hluta hagkerfisins sem er ekki hin föllnu fjármálafyrirtæki eru rétt ríflega 200% af landsframleiðslu og því einungis 1/5 af því sem þær voru áður en bankakerfið hrundi. Á móti þessari eign eru þar fyrir utan talsverðar eignir þannig að nettó hrein eignastaða landsmanna, þó að hún sé því miður neikvæð, er sú tala um eða innan við helmingur af landsframleiðslu. Það er kannski markverðasta talan sem mælikvarði á það hversu illa við stöndum gagnvart útlöndum.