138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir andsvarið. Já, það er náttúrlega ekki hægt að kalla þetta neitt annað en heilkenni og þetta er bara sorglegt. En ég held að það megi kannski segja að þetta sé nokkuð sem við erum öll að fást við, þjóðin, við viljum bara að dagurinn sé venjulegur og við séum ekki alltaf að fá slæmar fréttir, enn þá fleiri slæmar fréttir. Það hefur komið svo mikið af erfiðum og slæmum fréttum að ég held að mjög margir þjáist af þessu heilkenni á Íslandi núna og séu einmitt með þessa tilfinningu: Nú skulum við bara klára þetta, ýtum þessu frá okkur.

Ég held hins vegar að við verðum að staldra við og ég verð að segja það fyrir mína parta að mér finnst mjög leitt að ég skyldi t.d. ekki hafa hlustað á það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði hérna í desember, þar sem hann benti á það hve miklu máli skipti að við skoðuðum allar þessar skuldir heildstætt. Við gætum ekki tekið bara Icesave-pakkann eða bara lánin hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða bara krónubréfin, það yrði að horfa á þetta allt heildstætt og við yrðum að leita til bestu sérfræðinga, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum, til að hjálpa okkur með það hvernig við ættum að koma okkur í gegnum þetta.

Ég hef líka miklar áhyggjur af því hvar í ósköpunum við eigum að fá alla þessa peninga, því að það er eitt af því sem hefur líka komið fram í samtölum við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þær tölur virðast bara vera búnar til um það hvernig við eigum að geta staðið undir þessu. Búin hefur verið til tala sem uppfyllir þörf okkar hvað varðar afgang af vöruskiptum. Samkvæmt spá Seðlabankans í sumar var gert ráð fyrir að minnsti afgangur af (Forseti hringir.) viðskiptajöfnuði yrði 134 milljarðar en til samanburðar má benda á að besta ár Íslandssögunnar hvað varðar viðskiptajöfnuð var 1994 (Forseti hringir.) þar sem var 22 milljarða kr. afgangur.