138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Ég ætla samt að fá að spyrja um þætti sem ættu að vera á sérfræðisviði þingmannsins og varða viðskiptajöfnuð. Haft er eftir fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að vísu óstaðfest, að talan sem kemur fram í gögnum sjóðsins — og þar sem útreikningar sjóðsins eru það sem Seðlabankinn, fjármálaráðuneytið og fleiri stofnanir í samfélaginu byggja á þegar þeir gera efnahagsspár sínar samkvæmt því sem hefur komið fram í fyrirspurnum á þinginu þar sem ég spurði hvernig stæði á því að þær væru svona keimlíkar — þá kom fram í orðum fulltrúa sjóðsins þegar þeir voru spurðir út í það hvernig þeir kæmust að þessari niðurstöðu að við gætum náð svona miklum afgangi af viðskiptajöfnuði, að þeir hefðu framreiknað hvað það væri sem við þyrftum og það væri talan sem hefði verið sett inn í skjalið.

Það kemur fram í spá Seðlabankans sem lá fyrir í sumar að gert er ráð fyrir að minnsti afgangur á þessu tímabili sem við erum að tala um, á þessum 15 árum, yrði 134 milljarðar kr. en til samanburðar má benda á að besta ár Íslandssögunnar varðandi viðskiptajöfnuð var 1994 þar sem afgangurinn var 22 milljarðar. Ef þessi spá gengur ekki eftir og þessi talnaleikur, hvaða áhrif mun það hafa fyrir Ísland, annars vegar fyrir fyrirtækin sem þurfa á erlendum gjaldeyri að halda til að borga sínar skuldir og síðan fyrir ríkið til að standa skil á þeim miklu erlendu skuldbindingum sem það er búið að taka á sig og jafnvel ábyrgðir fyrir fyrirtæki, hvaða áhrif mun það hafa á íslenska þjóðarbúið og íslenska ríkisstjórn?