138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:29]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Er það þá rétt skilið hjá mér sem þingmaðurinn er að segja, að hann sjái fyrir sér töluvert meiri verðbólgu í landinu en gert er ráð fyrir líka í áðurnefndri spá Seðlabankans, vegna þess að hún virtist vera mjög stöðug þessi 15 ár og hvaða áhrif mun það hafa á greiðslugetu okkar?

Annað sem var tiltölulega óvanalegt í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem þeir skrifuðu við fyrstu endurskoðunina, sjóðurinn hefur almennt verið mikið á móti gjaldeyrishöftum en samkvæmt tillögum sem þeir gera til Íslands virðast þeir telja að við munum verða með gjaldeyrishöft töluvert lengur en þeir höfðu áður ætlað. Tengist það kannski því að þeir sjái ekki fyrir að gjaldeyrisvaraforðinn okkar sé í raun og veru sjálfbær? Er til einhver áætlun? Hefur einhvers staðar komið fram áætlun hjá fjárlaganefnd eða efnahags- og skattanefnd eða bara hjá Seðlabankanum sjálfum þar sem hægt er að sjá greiðsluflæðið, áætlað sjóðstreymi hjá þjóðarbúinu í heildina? Ég er ekki að tala um eftir sjö ár þegar við förum að borga þessa vexti og við förum að borga Icesave-skuldina, heldur bara næstu sjö árin, tímabilið þarna á milli. Verður einhver möguleiki á því að byggja upp einhvern forða til að við getum síðan farið að standa undir þessari skuldbindingu, ef sú áætlun er til staðar? Ef hún er það ekki mundi maður telja að það væri löngu tímabært að leggja þá áætlun fyrir þingið.