138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vék að þáttum sem varða verðlagsþróun og ég er alveg sammála honum um að vel kunni að vera að spár um þá þróun gangi ekki eftir. Auðvitað spilar margt saman og staða íslenska þjóðarbúsins er erfið. Við ákveðnar aðstæður getur myndast hætta á verðhjöðnun og við aðrar aðstæður, þegar hlutirnir ganga fram með öðrum hætti, getur líka myndast verðbólga. Við erum með öðrum orðum í mjög óstöðugri og flókinni stöðu.

Verðbólgan getur auðvitað farið þannig af stað að verkalýðshreyfingin geri launakröfur sem eru umfram greiðslugetu atvinnuveganna, sem hefur svo sem gerst hér, sem aftur leiðir til þess að raungengið lækkar. Ef raungengið lækkar umfram það sem er stöðugt þá mun það valda gengisfellingum og við förum í sama far og við vorum í áratugum saman. Það er eitt af því sem getur gerst. Það er voðalega erfitt að spá fyrir um framtíðina þessa dagana. Þess vegna verð ég að segja eins og er að ég er mjög efins um öll líkön og módel sem spá fyrir um þessa hluti. Ég held að menn verði að taka öllu slíku af varkárni.

Hvað varðar aðra þætti í því greiðsluflæði sem við horfum upp á til næstu ára þá geri ég ráð fyrir og ætla að mat liggi fyrir gagnvart útgjöldum ríkisins. Ég gef mér að menn hafi næstu árin nokkurn veginn kortlagt þær skuldir sem ríkið þarf að greiða í erlendri mynt og viti hvernig greiðsluflæðið lítur út. Jafnframt tel ég að það hljóti (Forseti hringir.) að verða dýrt fyrir sveitarfélögin en erfiðara að meta hvað varðar bankana og íslensk fyrirtæki.