138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst að skýringum hv. þingmanns um orsakir og ástæður þess hvernig á málum hefur verið haldið. Kenningin sem hv. þingmaður setur fram er náttúrlega áhugaverð og tilraun til að setja þessa hluti í pólitískt samhengi. Ég tel að það sé skoðunar vert hvernig þingmaðurinn nálgast þetta. Ég er þó enn á þeirri skoðun að sumt af því sé á fræðasviði sem við erum ekki að fást við innan þingsala. (Gripið fram í.) Það vildi ég ekki sagt hafa en það er eitthvað sem hefur valdið því og ég á erfitt með að skilja hvers vegna ríkisstjórnin brást ekki þannig við í þessari stöðu að segja: Nú munum við snúa okkur til þingmanna á norrænu þingunum, ræða við þá og útskýra stöðu okkar Íslendinga. Við munum fara til bresku þingmannanna og hollensku þingmannanna. Við munum standa fyrir auglýsingaherferð og senda fræðsluefni til þeirra sem áttu peninga inni í þessum sjóðum o.s.frv. Með öðrum orðum, virkilega tekið þennan slag og eytt til þess kannski einhverjum sambærilegum fjármunum og við vorum tilbúin til að verja til að sækja um aðild að öryggisráðinu þótt ekki væri meira. Það væru sennilega þeir peningar sem við Íslendingar hefðum nýtt hvað best ef við hefðum gert þetta.

Hversu mikið höfum við reynt að hafa áhrif á t.d. bandarísk stjórnvöld, að aðstoða okkur innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Hvaða samskipti nákvæmlega höfum við átt við bandaríska þingmenn og ráðamenn í þessu máli? Allar þessar spurningar munu auðvitað brenna á okkur og svörin við þeim munu koma. Þeir sem hafa talað fyrir því allt frá því fyrst í sumar að nauðsynlegt væri að samþykkja þetta einn, tveir og þrír, sumir hverjir að því að talið er án þess að hafa kynnt sér málið mjög mikið, og hafa verið sömu skoðunar allan tímann, munu auðvitað þurfa að spyrja sig þessara spurninga síðar meir. Hvað varðar viðskiptahallann þá tek ég undir það með hv. þingmanni að auðvitað munu (Forseti hringir.) lífskjör skerðast sem nemur þeim greiðslum sem við þurfum að borga til Breta og Hollendinga og það verður sárara vegna þess að þetta er í erlendri (Forseti hringir.) mynt.