138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mjög sérstakt að við þingmenn stjórnarandstöðunnar þurfum hvað eftir annað að reyna að geta okkur til um afstöðu þingmanna ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli. Það væri auðvitað miklu eðlilegra að geta átt orðastað við þá sjálfa og farið yfir það með þeim hver þeirra rök eru, hver okkar rök eru, og reynt að komast þannig með skynsamlegum hætti að niðurstöðu. En eins og umræðan hefur þróast, eiginlega frá fyrsta degi, höfum við fyrst og fremst þurft að geta okkur til um hvað fyrir þessum hv. þingmönnum vakir í málinu.

En ég held að hv. þm. Eygló Harðardóttir hafi hitt þarna alveg á réttan punkt þegar hún vísar til endurskoðunarákvæðisins vegna þess að stundum hef ég á tilfinningunni að það sé a.m.k. ein ástæða fyrir afstöðu þingmanna ríkisstjórnarflokkanna, að þeir trúi því í einhverri bjartsýni að við þurfum kannski aldrei að borga þetta. Þetta verði einhvern veginn allt öðruvísi eftir 2016, að þá verði einhvern veginn sú staða uppi að við þurfum bara ekkert að borga. Ég verð að játa að ég hef afskaplega litla trú á því og ég hef litla trú á því að jafnvel þó að við munum á þeim tímapunkti eiga rétt á að bjóða Bretum og Hollendingum í te eða kaffi, breyti það nokkru. Hollendingar og Bretar verða komnir með undirritaða lánasamninga, undirrituð skuldabréf sem þeir ætla að fara að rukka eftir þessi ár og ég held að ríkisstjórnir þessara landa, hverjir sem verða við stjórnvölinn í þessum löndum á þeim tíma, muni einfaldlega segja: Bíðið þið nú aðeins, þið skrifuðuð undir þennan samning, þið vissuð alveg hvað fólst í honum, af hverju borgið þið ekki samkvæmt efni samningsins? Hvað eruð þið (Forseti hringir.) að tala við okkur núna, af hverju töluðuð þið ekki við okkur árið 2009?