138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:07]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég legg það ekki í vana minn að fara í andsvör við samflokksfélaga mína, kýs frekar almennt að eiga við þá orðastað í þingflokksherbergi eða hér á göngunum, en ég vil þó inna hv. þm. Birgi Ármannsson eftir ákveðnu atriði.

Þannig er að ég sagði í ræðu minni áðan að ég ætti engar skynsamlegar skýringar á því af hverju t.d. hæstv. forsætisráðherra hefði dregið það svo mjög úr hömlu að senda bréf til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og gerði það reyndar aldrei, eða að hafa samband með sambærilegum hætti við kollega sína á Norðurlöndunum. Ég sagði að ég teldi að það væri eiginlega óútskýranlegt. Það er ekki þar með sagt, ég vil taka það fram, frú forseti, að ég telji að þeir sem hafi verið að vinna hér fyrir hönd Íslands hafi ekki gert það eftir bestu samvisku. Ég ætla engum manni það.

Ég verð að segja eins og er að ég neita að trúa þeirri skýringu sem hv. þm. Birgir Ármannsson setti hér fram eða viðraði og reyndar hefur komið fram m.a. hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að það geti stýrt afstöðu einstakra þingmanna og hæstv. ráðherra að við séum að sækja um aðild að Evrópusambandinu, vegna þess að það kemur sérstaklega fram í frumvarpinu að við Íslendingar segjum að við eigum ekki að greiða þetta. Ég get ekki fallist á það sem skýringu að menn séu tilbúnir, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, að láta þjóð sína gangast undir þvílíkar byrðar á þeim grundvelli og vitandi það að við eigum ekki að borga þetta og hafandi sett það fram alveg skýrt í lögum, og að ástæðan að baki því geti verið sú að menn vilji ekki verða óvinsælir hjá þeim þjóðum sem sækja þessa hluti á okkur, þeim sem fara fram með slíkum fantaskap sem raun ber vitni.

Ég vil því nota tækifærið og spyrja úr þessum ræðustól hv. þm. Birgi Ármannsson, hvort hann hafi virkilega ekki einhverjar aðrar skýringar á því hvernig á því standi að á þessu hefur (Forseti hringir.) verið haldið eins og raun ber vitni.