138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:34]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem er svo ómögulegt í þessu máli er sú staðreynd að ætlast er til þess að meiri hluti þingmanna segi já við því að gangast undir greiðslur fyrir hönd þjóðarinnar upp á gríðarlegar fjárhæðir, í sama frumvarpi þar sem sérstaklega er kveðið á um að okkur beri engin lagaleg skylda til að gera slíkt. Í raun er verið að ætlast til þess að hv. þingmenn segi já við því að Ísland verði beitt þvingunum til að greiða eitthvað sem því ber ekki að greiða. Það er auðvitað það hörmulega í málinu. Það er borið uppi á þeim rökum að það standi að okkur þvílík ógn og þvílík skelfing að ef ekki verður gert muni fara á verri veg fyrir land og þjóð. Á sama tíma hefur það sýnt sig að þær spár sem settar voru fram í sumar, um þá hluti sem annaðhvort mundu ekki ganga fram eða ganga okkur í mót, hafa ekki gengið eftir eins og ítrekað hefur verið bent á. Það er því ekkert skrýtið að við hv. þingmenn veltum fyrir okkur fullveldi þjóðarinnar og því hvort frumvarpið stangist á við stjórnarskrá. Það hafa komið fram af hálfu lögspekinga veigamikil rök fyrir því.

Ég minni á það, frú forseti, að fyrir ekki svo löngu voru miklar deilur í þingsal um það hvort ákveðið frumvarp sem varð til vegna hins svokallaða öryrkjadóms sem féll í Hæstarétti — hér var svo hart tekist á um það hvort það frumvarp stangaðist á við stjórnarskrá að forseti þingsins ákvað að senda bréf til Hæstaréttar til að fá úr þessu skorið. Þá féllu mörg og mjög þung orð af hálfu stjórnarandstæðinga sem nú eru margir hverjir orðnir stjórnarliðar.

Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort honum finnist ekki vera nokkur mismunur á því hvernig margir stjórnarliðar (Forseti hringir.) núverandi tala miðað við hvernig þeir töluðu í stjórnarandstöðu.