138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:39]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leitt að þurfa að segja það að það kemur mér mjög á óvart ef hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur trúað loforðum sem þessir stjórnmálaflokkar gáfu fyrir kosningar. Ég í það minnsta trúði þeim ekki og varð þess vegna ekki fyrir neinum vonbrigðum hvað það varðar að þau skuli ekki ganga eftir. Það er allt samkvæmt bókinni.

Ég verð að segja líka að vegna þess hvernig málið er vaxið, vegna þess hvernig ríkisstjórnin ber það fram — ríkisstjórnin segir enn og aftur, og ég verð að endurtaka mig hér, að Íslandi beri engin skylda til að greiða þetta en eigi samt að greiða þetta — breytir málið algjörlega um eðli. Má glöggt sjá það á því hvernig málið stæði ef ríkisstjórnin legði fram frumvarp sem segði að það væri mat þeirra sem flyttu frumvarpið að Íslandi bæri að greiða þetta og því ætti að veita ríkisábyrgð. Á þessu tvennu er reginmunur.

Þegar menn ræða hér um stjórnarskrá, þegar menn ræða um samvisku, þegar menn ræða um stærð þessa máls er verið að fara fram á það að Alþingi Íslendinga fallist á að skuldbinda íslenska þjóð til að greiða þessar gríðarlegu fjárhæðir, eða ganga í ábyrgð fyrir þessa gríðarlegu fjárhæð, án þess að við föllumst á að það sé greiðsluskylda. Það er hið hörmulega í þessu máli. Það er hið hörmulega, frú forseti.

Allar yfirlýsingar sem gefnar hafa verið, m.a. eins og hv. þm. Birgir Ármannsson las hér upp og hafði eftir núverandi hæstv. fjármálaráðherra, þegar hann var hv. þingmaður, um stöðu stjórnarliða gagnvart sinni ríkisstjórn, líka þau ummæli sem fallið hafa hér um stjórnarskrá af mörgum af núverandi stjórnarliðum sem þá voru stjórnarandstæðingar, og mikilvægi þess að lög stæðust stjórnarskrá — maður verður að játa að allt þetta mál (Forseti hringir.) verður hörmulegra og hörmulegra eftir því sem við ræðum það lengur.