138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get eiginlega svarað þessu með einu stóru nei-i. Þetta var ekkert rætt í nefndinni. Það eru ekki til neinar áætlanir um hvernig eigi að borga þetta. Menn hafa ekki gert neinar áætlanir um áhættugreiningu, eins og var t.d. gerð þegar við byggðum Kárahnjúkavirkjun. Hún kostaði rúmlega 100 milljarða og þar lögðu menn í flott forrit til að gera áhættugreiningu á því hvað gerist við jarðskjálfta, hvað gerist við eldgos, hvað gerist þegar verkföll eru o.s.frv. Menn fóru í áhættugreiningu á þeim vanda enda voru þar um 100 milljarðar í húfi.

En frú forseti. Hvað er í húfi? Það eru 700–1.000 milljarðar og einn af stærstu áhættuþáttunum sýnist mér vera ef verðhjöðnun verður í Bretlandi, en slíkt hefur gerst í því ágæta landi, eins og ég hef farið í gegnum áður. Ég ætla að vona að ég sé ekki farinn að endurtaka mig í því, því að þá er ég kominn í málþóf. Ekkert af þessu hefur verið rætt, ekkert af þessu hefur farið í gegn. Ég veit ekki hvernig þessir þingmenn ætla að horfast í augu við börnin sín eða barnabörnin eða hringja í þau, af því að þau búa þá úti í Svíþjóð. Ég veit ekki hvernig þeir ætla að réttlæta fyrir þeim að hafa samþykkt þessi ósköp, ef þeir samþykkja þetta. Mér finnst að sérstaklega hv. þm. Helgi Hjörvar verði að útskýra fyrir okkur af hverju hann ætli að greiða atkvæði með þessu, ef hann ætlar að gera það. Þegar hann er kominn á elliheimili þar sem allt er skorið við nögl og talar í símann eða í gegnum netið við börnin sín, sem munu þá búa í Íslendinganýlendu fyrir utan Gautaborg, þar sem er mikið atvinnuleysi og fátækt, hverju ætlar hann að svara þeim til um það af hverju hann greiddi atkvæði með þessu? Ekkert af þessu liggur fyrir, engin afstaða.