138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú, allt er þetta líkindafræði eins og lífið allt en ég tel þó að við þurfum alltaf að hafa hugfast að jafnvel þó að hlutirnir þróist í rétta átt er þetta engu að síður alveg gríðarleg byrði sem mun hafa áhrif á lífskjör almennings. Ég óttast að það hafi áhrif að Íslendingar hafa tilhneigingu til að líta fram hjá líkindafræðinni og hugsa sem svo að hlutirnir reddist. Þetta höfum við svo sem rætt áður.

En annað sem ég óttast að sé hér að verki er sú tilhneiging fólks, ekki bara Íslendinga heldur fólks almennt, að ímynda sér að hlutirnir verði alltaf nokkurn veginn eins og þeir eru á hverjum tíma, svo fólk sem hefur alist upp á Íslandi á undanförnum áratugum getur ekki ímyndað sér að veruleg breyting verði þar á til hins verra. Það heyrir kannski hv. þm. Pétur H. Blöndal lýsa sögunni af þingmanninum sem er á illa búnu elliheimili og þarf að tala við börnin sín í Svíþjóð og hugsar sem svo: Já, þarna er verið að draga upp einhverja mynd sem aldrei gæti orðið að veruleika á Íslandi. Þetta hugsar fólk vegna þess að hugarheimurinn á Íslandi er það lokaður að það kemst ekki út fyrir það sem það hefur vanist í lífinu. Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að það sé mjög hættulegt einkenni á fólki að telja hluti að einhverju marki gefna? Því eins og við höfum séð svo oft á 20. öldinni geta hlutirnir breyst mjög hratt (Forseti hringir.) og mörg Evrópulönd kynntust því á 20. öldinni að fara frá því að búa við velferð og mikla þróun yfir í fátækt og hörmungar.