138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þarna kom þingmaðurinn inn á mál sem ég gæti sennilega talað um í heilan sólarhring. Það er hvernig menn ímynda sér alltaf að staðan haldi áfram og telja það náttúrulögmál að allt gangi þeim í hag, hjónabandið haldi, atvinnan haldi, menn verði ekki veikir o.s.frv., það er eins og menn gangi út frá því sem náttúrulögmáli. En það er ekki náttúrulögmál að atvinnulíf á Íslandi gangi vel, alls ekki, það gæti hrunið eins og gerðist sl. haust og það gæti hrunið í alvöru. Enn er enginn farinn að svelta eða neitt slíkt en menn fara til Afríkulanda og Asíulanda og sjá fátækt fólk og hugsa: Já, þetta er fátækt fólk. En þeir geta ekki séð sjálfa sig í stöðunni, engan veginn, langt í frá. Það er þetta sem er svo óskaplega hættulegt og ég er bara, frú forseti, kominn á flug í þessu máli og gæti haldið lengi áfram, talað um kjúklinginn og allt það, sem er mjög skemmtileg dæmisaga úr Veröld Soffíu þar sem menn ganga út frá því að allt sé óumbreytanlegt en allt er breytingum undirorpið, hvert einasta atriði. Þetta uppgötva menn allt í einu, bingó, þeir eru allt í einu búnir að skilja við makann en það stóð ekki til. Allt í einu verður dauðsfall, það stóð heldur ekki til eða slys, menn reiknuðu bara ekki með því. Ég held að Íslendingar séu sérstaklega háðir þessu eða hafi litla fyrirhyggju, þeir halda alltaf að allt reddist. Þegar glimrandi vinna var alls staðar var fullt af vandamálum sem redduðust þótt þau ættu ekki að gera það, menn gátu bara bætt á sig vinnu. Nú geta þeir það ekki lengur. Menn þurfa bara að hætta að taka svona áhættu, sérstaklega þurfa hv. þingmenn að hætta að taka áhættu fyrir heila þjóð.