138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

samskipti ráðuneytisstjóra við AGS.

[12:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér er allsendis ókunnugt um að starfsmenn Stjórnarráðsins beini samskiptum sínum við erlenda aðila, t.d. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða einhverja aðra, í farveg persónulegra netfanga. Mér er ókunnugt um það og ég tel að það sé ekki æskilegt, svo það liggi algerlega ljóst fyrir. Mér er ekki kunnugt um að nokkrir starfsmanna minna geri það. En ég verð þá að taka það alveg skýrt fram að ég hef ekki gengið úr skugga um það, ég hef ekki haft neitt sérstakt tilefni til að spyrjast fyrir um það.

Ég er almennt þeirrar skoðunar að þegar starfsmenn Stjórnarráðsins og ráðuneyta eiga í einhvers konar viðræðum eða samskiptum fyrir hönd sinna ráðuneyta sé langeðlilegast að þau fari í gegnum ráðuneytin og séu þar með, ef svo má að orði komast, hluti af gögnum ráðuneytisins í viðkomandi máli.

Að því er varðar þennan tiltekna tölvupóst sem hv. þingmaður vísar til ætti ekkert í þessum tölvupóstum að koma á óvart, eftir því sem ég hef séð um málið í fréttum. Ég man ekki betur en að sá tölvupóstur sem verið var að segja frá í fréttum í gærkvöldi og í morgun sé á meðal þeirra gagna sem hv. þingmaður ætti að hafa lesið sem félagi í fjárlaganefnd. Þessa tölvupósta er að finna í þeirri möppu sem allir þingmenn höfðu aðgang að en óskað var eftir að bærust ekki í fjölmiðla á þeim tíma þegar þingið fjallaði um Icesave í sumar. Hv. þingmaður er kannski nokkrum mánuðum of sein með fyrirspurn sína en almennt verð ég að segja að ég tek undir það sem hún segir með þessu.