138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

breytingar á frítekjumarki.

[12:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú hefur verið í fréttum um helgina að frítekjumark öryrkja er sjö sinnum lægra en hjá atvinnulausum. Frítekjumarkið hjá atvinnulausum eru tæplega 720 þús. kr. á meðan það er einungis 98 þús. kr. hjá öryrkjum.

Það er haft eftir hæstv. félagsmálaráðherra að hann telji að almannatryggingakerfið sé meingallað og að þar sé heill frumskógur ólíkra frítekjumarka fyrir öryrkja, ellilífeyrisþega og atvinnulausa og boðar breytingar á kerfinu í vor. Nú heiti ég á hæstv. félagsmálaráðherra að ég muni leggja honum lið við greiða úr þessari flækju. Ég á sæti í fjárlaganefnd Alþingis og hef ekki rekist á neinar tillögur í þessa veru í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2010, af því að hæstv. félagsmálaráðherra boðar breytingar á vorþinginu. Því langar mig að spyrja hann um hvort það séu einhverjar tölur í þá veru sem mér hafa hugsanlega yfirsést. Í framhaldi af því spyr ég hvort hæstv. félagsmálaráðherra hafi rætt við hæstv. fjármálaráðherra um þessar breytingar, standi þær til árið 2010, og hvort við í fjárlaganefnd megum þá eiga von á því að það komi breytingartillaga frá ríkisstjórninni við meðferð fjárlagafrumvarpsins sem er nú hjá fjárlaganefnd. Eru þetta áætlanir ríkisstjórnarinnar og hefur málið verið rætt í hæstv. ríkisstjórn eða er þetta eingöngu persónuleg skoðun hæstv. ráðherra?