138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

breytingar á frítekjumarki.

[12:13]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að nýta það tímabil sem við göngum í gegnum núna til að reyna að greiða úr óreiðu sem hefur skapast þó svo að við höfum takmörkuð fjárráð. Þetta kerfi hefur verið vanrækt á undanförnum árum að því leyti að menn hafa ekki horft á heildarmyndina í almannatryggingakerfinu, (Gripið fram í.) hve skaðleg áhrif allar þessar tekjutengingar í kerfinu hafa haft. Árið 2007 bættum við kerfið verulega með grunnframfærslutryggingunni, með hækkun frítekjumarka, en við komumst auðvitað ekki mikið lengra í hækkun frítekjumarka við núverandi aðstæður í ríkisfjármálum. Þá skiptir mestu að skapa góða framtíðarstefnu sem mun skila árangri þegar fram í sækir.