138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

efnahagsástandið og brottflutningur af landinu.

[12:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra skreið úr híði sínu um lágnættið sl. föstudag og fór þá mikinn í andsvörum við mig í umræðum um Icesave-málið. Hann gerði þar að umtalsefni meginástæðu þeirrar skoðunar sinnar að Íslendingar gætu staðið undir Icesave, á Íslandi væri allt í miklum blóma og við værum á hraðri leið úr kröggum síðustu missira. Meginröksemd hans var að spár okkar framsóknarmanna um brottflutning Íslendinga sem standa eiga undir greiðslu Icesave-reikninganna hafi ekki ræst. Hæstv. utanríkisráðherra sagði orðrétt, með leyfi forseta: „Hvar er þessi fólksflótti? Hann hefur ekki orðið. Það sem stjórnarandstaðan hefur verið að segja hérna er meira og minna tóm vitleysa.“

Samkvæmt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands eru versnandi efnahagsaðstæður ein mikilvægasta ástæða þess að fólk kýs að flytjast búferlum og freista gæfunnar á nýjum stað. Stofnunin bendir einnig á að flutningar Íslendinga aukist ekki jafnskjótt og kreppir að, heldur líða oft eitt og tvö ár frá því að kreppan hefst og þar til fólk flytur til útlanda.

Nú er rúmt ár liðið frá upphafi kreppunnar og því miður virðist vera að koma í ljós að fólksflóttinn er hafinn líkt og kom fram í frétt RÚV í gærkvöldi. Þá kom fram í máli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um helgina að hann deilir ekki þeirri skoðun utanríkisráðherra að við séum komin upp úr mestu erfiðleikunum, heldur segir hann að staðan hér sé mjög alvarleg og muni verða mjög erfið næstu 5–6 árin. Ég vildi því gjarnan deila trú hæstv. utanríkisráðherra en því miður benda gögn og tölulegar staðreyndir til annars. Ef valið stendur á milli þess að trúa orðum hæstv. utanríkisráðherra eða gögnum frá Hagstofunni, Credit Info og Hagfræðistofnun verð ég að hryggja ráðherrann með því að beinharðar tölur hafa meira vægi í mínum huga. Ráðherrann sagði að trú hans á að fólksflóttinn hefði ekki orðið væri meginforsenda þess að hann teldi að við gætum staðið undir Icesave. Því spyr ég ráðherrann: Hversu mikill þarf fólksflóttinn að verða áður en hæstv. utanríkisráðherra skiptir um skoðun?