138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

einkaframkvæmdir í vegagerð og veggjöld.

[12:26]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn sem snýr að hugsanlegum einkaframkvæmdum í vegagerð eða samgöngumálum, sama hvort það er tvöföldun Suðurlandsvegar, Vaðlaheiðargöng, samgöngumiðstöð í Reykjavík, stækkun flugstöðvar á Akureyri, Sundabraut eða tvöföldun Hvalfjarðarganga. Allt var þetta í fylgiskjali í svokölluðum stöðugleikasáttmála og hefur verið unnið eftir því. Þessi verk eru misjafnlega langt komin til undirbúnings, sum lengra eins og gengur og gerist, önnur styttra.

Ég get t.d. upplýst að ég átti mjög góðan fund í síðustu viku með borgarstjóra og fleiri aðilum í borgarkerfi út af samgöngumiðstöð í Reykjavík norðan við Loftleiðahótelið. Það var mjög ánægjulegur og góður fundur og ég held að okkur hafi tekist að fara töluvert fram á við hvað það varðar.

Hv. þingmaður spyr um veggjöld og notendagjöld og sú umræða er ekki ný af nálinni. Hún er þannig að skrifaðar hafa verið margar skýrslur um hugsanleg veggjöld eða notendagjöld og hvernig í framtíðinni eigi að afla fjár til rekstrar vegakerfisins og nýbygginga ef um einkaframkvæmd er að ræða. Sú vinna hefur tekið dálítið langan tíma og hafa verið skrifaðar margar skýrslur um hana. Nýlega fékk ég skýrslu frá einni nefnd sem ég setti á laggirnar en hún starfaði að vísu mjög stutt, hafði lítinn tíma. En hugmyndin er að á næstunni fari meira vinna í gang hvað þetta varðar og hef ég í hyggju að allir flokkar á Alþingi komi þar að. Ég hef rætt það mál við formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um hvernig við ættum að standa að þeirri vinnu í framtíðinni. Það liggur fyrir að ganga frá bréfum til flokka á Alþingi til að kanna hvernig við eigum að halda þar áfram vegna þess að þetta er mál sem þarf að ræða betur. Þetta er mál (Forseti hringir.) sem er í gildandi samgönguáætlun og sem er búið að vera lengi í umræðunni, það var m.a. hafin umræða um það í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.