138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

samkomulag um fyrirkomulag umræðna.

[12:31]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég mætti á fund fjárlaganefndar í morgun. Ég stóð í þeirri meiningu að ræða ætti fyrirkomulag á því samkomulagi sem stjórn og stjórnarandstaða gerðu rétt fyrir helgi. Það var ekki svo, virðulegi forseti, stjórnarmeirihlutinn neitaði að ræða fyrirkomulagið og það var í rauninni þannig (Forseti hringir.) að það á ekkert að taka það til umræðu fyrr en 2. umr. er lokið.

(Forseti (ÁRJ): Um fundarstjórn forseta.)

Þetta er um fundarstjórn forseta, virðulegi forseti. Ég vil beina því til hæstv. forseta að hún beiti sér fyrir því að formaður og varaformaður fjárlaganefndar kynni sér það samkomulag sem gert var. Það er með öllu óásættanlegt að það líti út fyrir (Forseti hringir.) það, áður en málið komi til fjárlaganefndar, að það eigi ekki að standa við það sem þar kemur fram.