138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

svör við fyrirspurnum og fyrirkomulag umræðna.

[12:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vildi fá að gera athugasemd undir liðnum fundarstjórn forseta vegna þess að ég hef ekki fengið svör við spurningum til fjármálaráðherra. Ég lagði fram fyrirspurn til fjármálaráðherra um gengistryggðar og verðtryggðar eignir og skuldir bankanna 8. október og samkvæmt reglum þingsins er gert ráð fyrir að ráðherra hafi 10 virka daga til að svara fyrirspurnum. Ég hafði líka áður sent bréf til forseta þar sem ég gerði athugasemdir við það að hæstv. fjármálaráðherra neitaði að svara mér á síðasta þingi sams konar spurningu. Gerði ég aðeins breytingar á fyrirspurninni til að auðvelda ráðherranum að svara þessari fyrirspurn, en hún fjallar annars vegar um verðtryggingu og jöfnun skulda og eigna nýju bankanna þar sem er ekki óskað eftir sundurliðun eftir bönkum, einnig um gjaldeyrisjöfnun nýju bankanna þar sem er ekki óskað eftir sundurliðun eftir bönkum, og hver séu áhrif af þessum tveimur þáttum á hag nýju bankanna, á hag ríkisins og hag almennings.

Ég hefði talið að það ætti að vera tiltölulega auðvelt fyrir ráðherrann að svara þessu a.m.k. að einhverju leyti þar sem fyrir liggur að hluta til svar (Forseti hringir.) og mér skilst að Seðlabanki Íslands haldi utan um þessar upplýsingar í gögnum sínum.