138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

svör við fyrirspurnum og fyrirkomulag umræðna.

[12:42]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur um að það sé mjög erfitt að hefja fund hér fyrr en það liggja fyrir niðurstöður af þeim fundi sem er í gangi núna með forseta Alþingis og forustumönnum stjórnar- og stjórnarandstöðuflokkanna. Strax og samkomulagið lá fyrir má segja að það hafi komið brestur í það þegar stjórnarliðar hlupu með það í fjölmiðla sem var ekki samkvæmt samkomulaginu.

Ég vil líka gera alvarlegar athugasemdir við það að ég skrifaði þetta bréf bæði til forseta Alþingis og hæstv. fjármálaráðherra þar sem ég kvartaði undan því að hafa ekki fengið svör og óskaði eftir að fá útskýringu á því af hverju ég hefði ekki fengið svörin, þannig að það er ekki bara hæstv. fjármálaráðherra sem hefur ekki svarað mér heldur hefur hæstv. forseti ekki svarað bréfinu sem ég sendi forseta.