138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Þetta mál er farið að minna ansi mikið á hvernig málsmeðferðin var í sumar með aðildarumsögn að ESB, það voru sífellt að finnast skjöl og leyniskýrslur fram eftir allri umræðunni. Svo er það hárrétt athugasemd hjá þingmanninum að fyrst hér komu hálfgerðar ákúrur frá hæstv. utanríkisráðherra áðan um að hún væri of sein með þá fyrirspurn sem hún lagði fyrir ráðherrann áðan, þá er það náttúrlega þannig að þingmenn halda þann trúnað sem þeim er treyst fyrir en nú er þetta í fyrsta sinn orðið opinbert skjal, þessi tölvupóstssamskipti sem fóru á milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þáverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins. Þess vegna er alveg með ólíkindum að þetta skuli hafa verið með þeim hætti að ráðuneytisstjórinn hafi farið fram á það við þennan aðila að eiga samskipti við sig á einkatölvupóstfang sitt.

Mikið var rætt hér fyrir helgi að komið hafi verið heim með samninga sem ekki voru til, hina svokölluðu „non paper“ og „one shot“ eða hvað þetta hét nú allt. Þetta var eitthvað sem hvergi var hægt að festa hönd á og var ekki einu sinni hægt að sýna þingmönnum í fjárlaganefnd hvað þá öðrum frumgerðina að þessum skjölum og pappírum, en þrátt fyrir það voru þau til. Leyndarhyggjan er því mikil og alveg hreint að verða óþolandi hvernig að þessum málum er staðið. Því er ekki nema von að það vakni spurningar hjá flestum þingmönnum um það hvar öll skjölin séu sem ekki hafa sést og eru einhvers staðar undir öllu málinu. Það verður að galopna þetta mál, fara yfir öll samskipti þessa aðila, fyrrverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins sem er núna aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Finnst hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur ekki orðið tímabært að þessir aðilar verði skoðaðir sérstaklega?