138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég er þeirrar skoðunar að það sé orðið fyllilega tímabært og þess vegna fór ég í óundirbúna fyrirspurn við hæstv. utanríkisráðherra áðan til að fá skoðun hans á því hvort honum þætti það rétt og eðlilegt að svona samskipti færu fram á persónulegum netföngum. Hæstv. ráðherra sagði að honum að þætti það ekki æskilegt. Þá kom ég reyndar upp aftur og spurði hvort það væri ekki æskilegt eða hvort það væri bannað. Ég fékk ekki svar við því en það er það sem mig langar að fá að vita. Er það leyfilegt í íslenskri stjórnsýslu að svona mikilvæg mál, svona mikilvæg samskipti, sem maður skyldi ætla að væru öll skrásett, samskipti manna í slíkri deilu, er það hreinlega leyfilegt samkvæmt íslenskum lögum — og nú sný ég spilinu við og spyr þingmanninn sem er löglærður — er það leyfilegt samkvæmt íslenskum lögum að milliríkjasamskipti og samningaviðræður um svo brýna hagsmuni geti bara farið fram í einkatölvupóstum að ég tali nú ekki um, og það er efni í aðra ræðu, hvað var svo verið að ræða í þessum tölvupósti? Og fyrst þetta er orðið opinbert skjal núna er það náttúrlega mikið fóður inn í umræðuna, fóður sem við höfum ekki getað nýtt okkur í umræðunni vegna þess að við vorum bundin trúnaði og við þingmenn höfum öll haldið þann trúnað. Hvað er ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu t.d. að leggja það mat á stöðuna að ekki sé hægt að klára eitthvert samkomulag fyrir kosningar? Hvað átti hann við? Er hann að fara fram á það að kjósendur verði blekktir? Það liggur í orðunum. Þetta og margt fleira getum við núna farið að ræða (Forseti hringir.) vegna þess að þau gögn sem við vorum bundin trúnaði um hafa nú verið gerð opinber.