138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir ræðu hans. Það vakna margar spurningar þegar málin taka svona marga hringi í umræðunum. Hring eftir hring hefur þetta mál farið í sex mánuði og enn þá er verið — frú forseti, ég ætla að segja eitt stórt orð núna — að ljúga að okkur þingmönnum virðist vera. Það er alveg hreint með ólíkindum hvað þessi ríkisstjórn virðist ætla að komast upp með. Ég sagði í ræðum mínum fyrir helgi að ráðherrar hafa þurft að segja af sér ráðherradómi fyrir minni sakir en nú liggja fyrir. Það er eitt sem víst er.

Framganga hæstv. fjármálaráðherra í þessu máli er með ólíkindum og hann lætur ekki sjá sig í þingsal í dag enda hefur hann afspyrnulélegan málstað að verja eftir að þessar trúnaðarupplýsingar komust í loftið. Þetta er hans nánasti samstarfsmaður sem á í þessum tölvupóstsamskiptum, ég minni enn á það, þetta var embættismaður sem var ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins og er nú bæði vinstri og hægri hönd hæstv. fjármálaráðherra. Hann er pólitískur aðstoðarmaður hans og í þriðja lagi skulum við aldrei gleyma því að þessi sami aðili fór fyrir eða var í þeirri samninganefnd sem fór út og gerði upphaflega Icesave-samninginn. Við vitum öll hvernig sá samningur leit út þegar heim var komið en við stjórnarandstöðuþingmenn höfum reynt að lappa upp á hann og bjarga þeirri ríkisstjórn frá stóru tjóni án árangurs.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái framtíðina í þessu Icesave-máli fyrir sér. Hvað eigum við þingmenn að gera þar sem við fáum svo misvísandi upplýsingar? Telur þingmaðurinn einhverjar forsendur fyrir okkur, þá 63 þingmenn sem sitjum á þingi, að samþykkja þetta frumvarp á meðan (Forseti hringir.) leyndarhjúpurinn er svona mikill og upplýsingar af skornum skammti?